Fimmtudagur 27. júní, 2024
8.1 C
Reykjavik

Þegar Einar kærði skólameistarann fyrir að reykja á vistinni: „Einstök ókurteisi af hans hálfu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einar Steingrímsson stærðfræðingur hefur lengi haft gaman af því að rugga bátnum og hefur oft farist það vel úr hendi, eins og baksýnisspegill kvöldsins er til vitnis um.

Það var um vorið 1974 að skólameistari Menntaskólans á Akureyri varð þannig á í messunni að hann lét nappa sig við að reykja vindil á heimavistinni en reykingar þar voru stranglega bannaðar. Var atvikinu lýst með miklum tilþrifum í skólablaði MA en þar kemur fram líkleg vindlategund og magn ösku sem féll af vindlinum á nýlagt teppi vistarinnar. Enginn af þeim nemendum sem urðu vitni að athæfi skólameistarans þorði að segja orð við hann en eftir að hann var farinn af vistinni, voru þeir sammála um að þarna hafi átt sér brot á heimavistarlögum. Einar Steingrímsson var einn þeirra nemenda en hann var staðráðinn í að láta meistarann ekki komast upp með þetta enda skyldi eitt yfir alla ganga.

Í fyrstu brást skólameistarinn við á góðan hátt en um leið og honum var ljóst að Einari væri alvara með kærunni, varð hann ævareiður og hótaði að reka hann af vistinni, fyrir að móðga sig með þessari kæru. Og það er einmitt það sem meistarinn gerði, hann rak hinn 19 ára Einar Steingrímsson af heimavist MA. Fékk hann þó að halda áfram námi við skólann, allt þar til hann hætti í skólanum eftir vorönnina, en það gerði hann óháð heimavistarmálinu. Harðneitaði skólameistarinn því að brottreksturinn úr heimavistinni hafi verið pólitísk en tók svo fram í viðtali við Alþýðublaðið að Einar tilheyrði „kommúnistasellu“ sem vildi blása málið upp. Kærði Einar úrskurð meistarans til Menntamálaráðuneytisins, sem staðfesti úrskurðinn og fannst ekkert að viðbrögðunum.

Hér má lesa skrif Alþýðublaðisins um hið stórskemmtilega mál en fyrir neðan það er stutt viðtal við Einar frá því í dag.

Skólameistari M.A. kærður fyrir að ganga með vindil um heimavistina

Í nýlega útkomnu eintaki af „Minnsta-Muninn”, sem mun vera blað, sem gefið er út af hópi nemenda Menntaskólans á Akureyri, er skýrt frá all sérstæðu máli, sem kom upp við skólann nýlega. Nemandi kærði Tryggva Gíslason, skólameistara, fyrir að reykja á göngum heimavistar, en slíkt mun bannað samkvæmt reglum heimavistar. Viðbrögð Tryggva urðu þau, samkvæmt frásögn blaðsins, að nemandinn var rekinn af heimavist fyrir að móðga skólameistarann. Það síðasta í málinu er það, að umræddur nemandi hefur kært úrskurð skólameistara til menntamálaráðuneytisins, og er málið þar í athugun.

Í frásögn „Minnsta-Munins” af atvikinu segir svo: „Um aðdraganda að brottvikningu félaga Einars Steingrímssonar af heimavist, er þetta helst: 2. mars gengur háttvirtur meistari út úr ibúð sinni í heimavistinni með stóran vindil (líklega King Edward Imperial) og ásamt einum kennara gengur hann niður stigaganginn. Inn í setustofu, litast þar um, en fer síðan fram í anddyrið. En þá gerist óhappið: um það bil 2 cm af vindilsösku féllu til jarðar (niður á nýja teppið). Nokkrir nemendur voru viðstaddir þetta slys, en enginn sagði orð meðan meistari var að reyna að sópa öskunni upp, þó í hugskoti þeirra stæði augljóslega 5. gr. II. kafla í Reglum Heimavistar MA. En þegar meistari var kominn úr heyrnarfæri litu nemendur hver á annan og spurðu: Eru reykingar ekki bannaðar hér? Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um þann þrælsótta, sem ríkir hér í skólanum.

- Auglýsing -

Félagi Einar Steingrimsson kærði Tryggva Gislason eins og Reglum Heimavistar gera ráð fyrir. 7. mars afhenti heimavistarráð kæruna Tryggva Gíslasyni, sem í fyrstu hafði gaman af, en er honum varð ljóst að hér var ekkert gamanmál á ferðinni, brást hann hinn versti við og tók hamskiptum. Sagði hann við vistarráðsmenn að þetta væri þeim til minnkunar, fyrir þetta yrði Einari vikið úr heimavistinni og jafnvel úr skóla. Ennfremur bað hann vistarráðsmenn að boða Einar á sinn fund, en þar sem ekki náðist í hann fyrr en seint um kvöldið, mætti hann ekki fyrr en daginn eftir. Á þessum fundi tjáði meistari Einari, eftir snörp orðaskipti þeirra á milli, að honum væri vikið úr heimavistinni.

Á fundi með heimavistarráði sagði meistari, að forsendur fyrir brottvikningunni væru að Einar hefði sýnt sér móðgun með kærunni og ,,að hann þyldi ekki að hafa mann, sem hefði andúð á stjórnarskránni undir sama þaki”.”

Alþ.bl. snéri sér í gær til Tryggva Gíslasonar, skólameistara, og spurði hann um málið. Sagði Tryggvi það rétt, að hann hefði gengið úr íbúð sinni með vindil í hendi, í gegnum ganga heimavistarinnar og út. Umræddur nemandi, Einar Steingrímsson, hafi kært þetta til heimavistarráðs. Tryggvi sagðist líta á kæruna sem móðgun við sig sem æðsta yfirmann skólans og jafnframt yfirmanns heimavistar. Þetta hefði verið önnur ástæðan fyrir þvi, að Einari var vikið af heimavist. Hin ástæðan væri sú, að Einar hefði margsinnis gerst brotlegur við reglur heimavistarinnar, en ætið hefði verið horft í gegnum fingur við hann. Þvi væri það einstök ókurteisi af hans hálfu, að ætla að blása þetta mál upp, kveikja málsins væri fáránleg. Það væri alrangt, eins og vissir nemendur hefðu haldið fram, að brottvikning Einars úr heimavistinni væri pólitísk.

- Auglýsing -

Skólameistari sagði, að Einari hefði ekki verið vikið úr skóla, og stundaði hann þar nám utanskóla til að ná upp töf i námi. Sagði skólameistari að Einar tilheyrði „kommúnistasellu” við skólann, sem vildi blása þetta mál upp. Einar hafði áður staðið að svipuðu máli fyrir tveimur árum vegna reksturs heimavistarinnar, og blandaðist sonur þáverandi skólameistara inn í það mál. Hafði það mál einnig verið blásið upp, og orðið um það blaðaskrif.

Mannlíf heyrði í Einari Steingrímssyni við vinnslu þessa Baksýnisspegils en hann er nú staddur í Hrísey og hafði lítinn tíma til að spjalla. Aðspurður hvað hefði komið út úr kæru hans á úrskurðinum, sagði hann að Menntamálaráðuneytið hafi vísað því frá og sagði hann einhvers staðar enn eiga svar ráðuneytisins.

Aðspurður hvernig samskiptin hafi verið á milli hans og skólameistarans eftir að hann hafði verið rekinn af vistinni, sagði Einar að þau hafi ekki verið mikil, enda hafi hann hætt í skólanum eftir vorönnina. „En svo hittumst við einhvern tíma 2005, á einhvers konar júbílantaball, þó ég hafi nú ekki útskrifast með þeim. En við töluðum nú ekkert um þetta en við töluðum þannig saman að það var ljóst að við erfðum þetta hvorugur við hvor annan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -