Miðvikudagur 25. september, 2024
4.5 C
Reykjavik

Tíu íslenskar stúlkur aðalvitni FBI vegna sprengjuhótunar: „Þetta var 26 ára ítalskur töffari“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tíu íslenskar stúlkur og kennari þeirra lentu heldur betur í hremmingum á leið sinni frá New York til Miami árið 1989 þegar sessunautur einnar þeirra hótaði skyndilega að sprengja upp flugvélina.

Íslenskir spænskunemar, 10 manna stúlknahópur fengu heldur betur meira fyrir flugmiðann frá New York til Miami, en þær báðu um þegar ítalskur karlmaður tilkynnti allt í einu að hann væri með sprengju og hann myndi sprengja vélina í loft upp. Eftir að flugvélinni var lent í Miami var maðurinn handtekinn en stúlkurnar íslensku urðu aðalvitni bandarísku alríkislögreglunnar í málinu þar sem þær sátu næst manninum.

Tíminn náði einkaviðtali við eina stúlkuna, Önnu Margréti Bjarnadóttur, sem var sessunautur hins ítalska „töffara“ eins og hún lýsti honum. „Hann var klæddur í svarta silkiskyrtu, með opið niður á bringu og áberandi hálsfesti,“ sagði Anna og bætti við að hann hefði verið mjög stressaður og verið til vandræða. Hann hafi talað mikið við stúlkurnar um Ísland en þær hafi reynt hvað þær gátu að losna við hann, „sögðum meðal annars að íslenskar konur væru ægilegar valkyrjur og næstum því hættulegt að vera nálægt okkur,“ sagði Anna í viðtalinu.

Anna sagði að flugfreyjurnar hafi hegðar sér mjög „heimskulega“ í fluginu en það hafi verið mjög áberandi að þær voru hræddar við Ítalann og að íslenska hópnum hafi verið hætt að lítast á blikuna. Flugfreyjurnar hafi beðið um að fá að kíkja í tösku mannsins sem hann hélt á en hann neitað því. Þegar flugvélinni var síðan lent í Miami hafi FBI handtekið manninn „A la Miami Vice“ eins og það er orðað í frétt Tímans.

Hér fyrir neðan má lesa viðtal Tímans frá 1989:

Tíu íslenskar stúlkur á leið til Mexíkó með kennara sínum aðalvitni FBI vegna sprengjuhótunar:

- Auglýsing -

Sessunauturinn hótaði að sprengja flugvélina

Tíu manna hópur íslenskra spænskunema og kennari þeirra urðu fyrir því að samfarþegi þeirra í innanlandsflugi í BNA, lýsti því yfir að hann væri með sprengju í handfarangri. Bandaríska Alríkislögreglan, FBI, handtók manninn við lendingu vélarinnar í Miami og nemarnir voru teknir til yfirheyrslu sem aðalvitni í málinu þar sem þeir sátu næst manninum alla leiðina frá New York.

Spænskunemarnir, allt stúlkur, voru á leið frá New York til alþjóðlega flugvallarins í Miami, með fullsetinni breiðþotu Pan Am, síðastliðinn fimmtudag, skömmu fyrir hádegi að staðartíma. Þaðan var förinni heitið áfram til Mexíkó. Þrjár stúlknanna sátu í öftustu röð næst salerni flugvélarinnar. Skömmu eftir flugtak kom til þeirra maður sem hafði setið framar í vélinni. Hann færði sig til í vélinni þar sem fremst er bannað að reykja. Ein stúlknanna reykir ekki og bauð manninum að skipta við sig um sæti. Þegar leið á ferðina gaf maðurinn sig á tal við sessunaut sinn Önnu Margréti Bjarnadóttur. Hann hafði mikinn áhuga á íslandi og spurði um allt milli himins og jarðar varðandi land og þjóð.

„Þetta var 26 ára ítalskur töffari. Hann var klæddur í svarta silkiskyrtu, með opið niður á bringu og áberandi hálsfesti. Hann var í vínrauðum jakkafötum með svarta stress-tösku sem hann var alltaf að opna. Hann var ofsalega stressaður og mjög mikið vesen á honum. Þessi náungi sagðist vera frá Róm en hefði búið í New York síðastliðin ellefu ár. Hann talaði ensku með mjög sterkum ítölskum hreim og sagði mér að hann væri skartgripasali. Maðurinn talaði mjög mikið við okkur og var alltaf að spyrja eitthvað um Ísland. Við reyndum eftir fremsta megni að losna við hann, sögðum meðal annars að íslenskar konur væru ægilegar valkyrjur og næstum því hættulegt að vera nálægt okkur,“ sagði Anna.

Anna Margrét Bjarnadóttir

Þegar hún spurði hvað hann ætlaði að gera til Miami fékk hún þrjár mismunandi útskýringar. „Til að byrja með sagðist hann vera að fara til Miami í viðskiptaerindum, síðan sagðist hann vera að fara að heimsækja kærustuna sína og að lokum að hann væri bara að fara í frí og sleikja sólina. Að þessari ferð lokinni ætlaði hann í heimsókn til Rómar.“ Þegar leið á ferðina tóku stúlkurnar eftir því að flugfreyjurnar virtust hafa mjög mikinn áhuga á manninum. „Við vissum ekki hvað gekk á en okkur fór ekki að verða um sel. Flugfreyjurnar hegðuðu sér að mínu mati mjög heimskulega. Þær voru alltaf að segja hver annarri að fara varlega og passa sig, svo farþegarnir heyrðu. Það var allt of áberandi að þær voru hræddar við manninn,“ sagði Anna.

- Auglýsing -

Þegar leið á flugferðina stóð maðurinn upp og ætlaði á salernið. „Þá upphófust mikil læti og flugfreyjurnar náðu í verði sem fóru að tala við manninn og vildu fá að leita í töskunni hjá honum. Ítalinn reyndi að afsaka þessa uppákomu við okkur og sagðist alltaf lenda í einhverju veseni í flugvélum þar sem hann væri svo blóðheitur, en að hann væri í raun og veru ekki slæmur náungi. Hann hefði bara ekki viljað skilja töskuna eftir í sætinu. Flugfreyjunum og Ítalanum bar að sögn FBI ekki saman um hótunina. Tvær flugfreyjanna voru harðar á því að hann hefði sagst vera með sprengju í töskunni en við okkur sagðist hann hafa spurt hvort þær væru eitthvað hræddar við sprengju þegar hann ætlaði með töskuna á salernið,“ sagði Anna.

Þegar flugvélin var lent í Miami var tilkynnt í hátalarakerfinu að FBI ætli að koma um borð og taka einn farþeganna fastan. „Þeir komu afturí og það má segja að þetta hafi verið handtaka „a la Miami Vice“. Ítalanum var greinilega mjög brugðið þegar tilkynnt var um FBI. Hann sat til að byrja með alveg kyrr en þegar þeir tóku hann og beygðu niður í gólfið og smelltu handjárnum á, barðist hann um á hæl og hnakka. Ein stúlknanna sá FBI fara ofan í töskuna hjá honum og taka upp svart hylki og bréf og setja í plastpoka en við vitum ekki hvað það var. Þegar þessu var lokið var tilkynnt að um sprengjuhótun hafi verið að ræða,“ sagði Anna.

Öllum farþegum sex öftustu sætaraðanna var smalað saman, einn biðsalur flugstöðvarinnar rýmdur og fólkið tekið til yfirheyrslu, einn í einu. Sérstök áhersla var lögð á yfirheyrslu Önnu Margrétar þar sem hún hafði setið við hlið mannsins megnið af leiðinni. „Þeir spurðu okkur spjörunum úr varðandi hvað við hefðum séð undarlegt við manninn. Þeir voru mjög vingjarnlegir en við vorum dauðhræddar um að missa af flugvélinni okkar til Mexíkó, sem við náðum þó í þremur mínútum fyrir brottför,“ sagði Anna.

Skrifstofur FBl í Miami voru lokaðar í gær en þá var „Memorial day“ haldinn hátíðlegur. Af þessum sökum fengust ekki frekari upplýsingar varðandi hvort maðurinn hefði í raun verið með sprengju í farangrinum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -