Föstudagur 28. júní, 2024
11.4 C
Reykjavik

Allt sem vitað er um Wagnerliða frá dauða foringjans:„Veldi Prigozhins sýnir enn og aftur lífsmark“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðustu ár voru hinir ógnvekjandi málaliðar í Wagner-hópi Yevgeny Prigozhin, áberandi í stríðsfréttum heimsins en lítið hefur spurts til þeirra eftir að foringinn fórst er flugvél hans hrapaði. Hér má lesa hvað varð um málaliðana eftir dauða Prigozhin.

Fyrir ári síðan hóf stofnandi Wagner hópinn, Yevgeny Prigozhin, skammvinna uppreisn gegn rússneska varnarmálaráðuneytinu. Málaliðar hans marseruðu í átt að Moskvu og komust alla leið til Rostov-on-Don án þess að mæta neinni mótspyrnu. En kvöldið eftir höfðu Wagner-liðarnir snúið aftur í vettvangsbúðir sínar og Kreml tilkynnti að málaliðarnir hefðu tvo kosti: að skrá sig í rússneska herinn eða fara frá Rússlandi til Hvíta-Rússlands. Nákvæmlega tveimur mánuðum síðar fórust Prigozhin og nokkrir félagar hans í flugslysi. Síðan þá hefur 26 ára sonur Prigozhins erft eignir hans og málaliðar Wagner-hópsins í Sýrlandi og Afríku verið innlimaðir inn í rússneska herinn. Í nýrri skýrslu BBC News Russian segir frá því sem hefur orðið af bardagamönnum Wagner-hópsins.

Sýrland

Málaliðar Wagner-hópsins hafa verið virkir í Sýrlandi frá því að minnsta kosti síðan 2015. Eftir uppreisn Prigozhins í júní 2023 var Sýrland að sögn einn af áfangastöðum þar sem uppreisnarmennirnir fengu að fara. Tveir upplýstir heimildarmenn sögðu BBC News Russian að Wagner-liðarnir sem staðsettir eru í Sýrlandi hafi verið boðnir opinberir samningar við rússneska varnarmálaráðuneytið. Þar af leiðandi eru allir rússneskir bardagamenn í Sýrlandi í dag atvinnuhermenn.

„Það var annað hvort varnarmálaráðuneytið eða dauðinn,“ sagði fyrrverandi yfirmaður Wagner-hópsins við BBC News Russian.

Í frétt BBC kemur einnig fram að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar frá forsetakosningunum í Rússlandi 2024 hafi leitt í ljós að 500 fleiri manns eru í rússnesku hersveitinni í Sýrlandi en í atkvæðagreiðslunni í þinginu árið 2021. BBC News Russian bendir á að þetta sé vegna þess að málaliðarnir sem þar voru staddir, hafi nú gengið formlega í raðir rússneska hersins.

- Auglýsing -

Afríka

Seint árið 2023 bárust fregnir af því að Rússar væru að setja saman Afríkuher sem ætlað er að koma í stað Wagner-hópsins sem starfaði í álfunni. Á þeim tíma sagði rússneska viðskiptadagblaðið Vedomosti að Afríkusveitin myndi að sögn starfa í Burkina-Faso, Líbýu, Malí, Mið-Afríkulýðveldinu (CAR) og Níger.

Samkvæmt heimildum Vedomosti myndi Afríkusveitin heyra beint undir rússneska varnarmálaráðuneytið og vera undir eftirliti aðstoðarvarnarmálaráðherrans Yunus-Bek Evkurov. Evkurov fór margar ferðir til Afríku frá september til desember 2023, ásamt Vladimir Alekseyev hershöfðingja GRU, sem hefur umsjón með Redut PMC (einkaherfyrirtæki), til að koma á „nýju samstarfi við Afríkulönd þar sem hernaðar- og pólitískur stuðningur var áður veittur í gegnum einkahernaðarfyrirtæki.“

Samkvæmt BBC News Russian undirrituðu málaliðar Wagner-hópsins í nokkrum Afríkulöndum samninga við rússneska varnarmálaráðuneytið um að ganga í Afríkuherinn. Sumarið 2024 var aðeins starfsemi Wagner-samsteypunnar í CAR óbreytt.

- Auglýsing -

Í frétt BBC kemur fram að Pavel, sonur Yevgeny Prigozhin, stýri starfsemi Wagner-samsteypunnar í Mið-Afríkulýðveldinu. „Moskva gaf erfingjanum leyfi til að halda áfram að gera það sem faðir hans var að gera í Afríku – með því skilyrði að það stangist ekki á við hagsmuni Rússlands,“ sagði heimildarmaður sem starfaði áður með Prigozhin við BBC.

Pavel Prigozhin hefur einnig reynt að endurvekja pólitísk verkefni föður síns í Afríku, segir í frétt BBC. „Veldi Prigozhins sýnir enn og aftur lífsmark,“ sagði ónefndur heimildarmaður. „Svo virðist sem allt hafi verið samþykkt af einhverjum í Moskvu. Þeir hafa áhuga á Suður-Afríku og fyrst og fremst Suður-Afríku. Þeir taka enn þátt í sömu málunum: pólitískum ferlum, kosningum, og að hafa áhrif á almenningsálitið í gegnum fjölmiðla.

Rússland

Seint í október 2023 tilkynnti Apty Alaudinov herforingi að fyrrum Wagner-málaliðar væru að flytja til Akhmat sérsveitar Tsjetsjníu og fara í bardaga í Úkraínu. Að sögn Alaudinov innihélt þessi „mikla ráðning“ fyrrum Wagner bardagamanna, jafnvel fyrrverandi herforingja. Ramzan Kadyrov, ríkisstjóri Tsjetsjníu, var enn nákvæmari og hélt því fram að meira en 170 fyrrverandi málaliðar hefðu gengið til liðs við Akhmat-herdeild hans. En heimildarmenn sögðu BBC News Russian á þeim tíma að ekki fleiri en 50 málaliðar hafi í raun gengið til liðs við Akhmat.

Þann 5. apríl tilkynnti Kadyrov um enn einn gríðarlegan straum fyrrum málaliða inn í Akhmat sérsveitina og fullyrti að 3.000 bardagamenn hefðu gengið til liðs hana auk hins þekkta málaliðaforingja, Alexander Kuznetsov. Daginn eftir ávarpaði Kuznetsov aðra málaliða sína í myndbandi og sagði: „Allt verður eins og það var í Wagner PMC, einn á móti einum. Án nokkurra pappíra […] og svo framvegis.“

Hvort 3.000 fyrrverandi Wagner málaliðar hafi í raun gengið til liðs við Akhmat hefur ekki verið staðfest; engar fréttir hafa borist af Kuznetsov og mönnum hans síðan í apríl.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -