
Í kringum 3000 manns glíma við langvinn eftirköst Covid samkvæmt Landlæknisembættinu en ekki er haldið utan um tölfræði um börn sérstaklega.
„Það eru ekki einföld greiningarskilmerki. Það er ekki að maður taki eitthvað próf og þá ertu með eða ekki með kvillann eða sjúkdóminn. Þannig að nákvæm tölfræði er ekki til, en af þessum hóp eru vafalaust líka börn,“ sagði Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir hjá Barnaspítala Hringsins, í viðtali við RÚV um málið.
Hann segir að greiningin sé erfið og skilgreiningin fyrir börn óskýr. Þá séu einkenni barna og fullorðna ekki endilega eins. Samkvæmt Valtý eru börn á Íslandi sem geta ekki sinnt daglegum störfum vegna eftirkasta Covid og það vanti endurhæfingarúrræði fyrir þau. Þó að vissulega séu til úrræði þurfi að sníða þau sérstaklega fyrir börn. Hann vill meina að slíkt yrði mjög til bóta.
Hann tekur þó fram að flest þeirra barna sem glíma við eftirköst Covid sýni minni háttar einkenni.
Komment