
Atli Þór Fanndal segir fyrirhuguð hækkun á veiðigjöldum vera til verndar lýðræðinu.
Atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra kynntu í dag breytingar sem til stendur að gera á aflaverðmæti sem þau segja að skili almenningi réttlátari hlut í sjávarauðlindinni. Með breytingunum gætu veiðigjöldin tvöfaldast.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, Atli Þór Fanndal skrifaði Facebook-færslu rétt í þessu er ljóst var að mögulega muni veiðigjöldin tvöfaldast við breytingar Atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra sem kynntar voru í dag. Segir hann að hækkunin sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir að kvótakóngarnir „kaupi stjórnmálin, fjölmiðla og hreinlega bara allt“.
„Að hækka veiðigjöld er til verndar lýðræðinu. Ef auðlindarentan er ekki tekin af þeim smáa hóp sem hennar fær að njóta þá kaupa þeir ekki bara lúxusíbúðir og skíðaferðir. Þeir kaupa stjórnmálin, fjölmiðla, menninguna og hreinlega bara allt. Heimild til nýtingar á takmarkaðri auðlind eru forréttindi í kvótakerfi (enda eru kvótakerfi til þess að takmarka aðgang og veita sumum en ekki öðrum).“ Þannig hefst færsla Atla Þórs en hann segir í framhaldinu að slíkt myndi ekki hefðbundinn gróða, heldur rentu sem eigi að taka af þeim.
„Slíkt myndar ekki hefðbundinn gróða eins og bakarí eða skemmtanahald. Það myndar rentu sem á að taka af þeim. Útgerðarmenn eiga að fá eins og aðrir í rekstri að njóta ágóða eigin fjárfestingar, markaðssetningar og nýsköpunar en að fá sértækt aðgengi að auðlind og halda eftir stórum hluta auðlindarentunnar er einfaldlega lénsherrakerfi.“
Að lokum segir hann enga ástæðu vera fyrir því að launafólk gefi heilu spítalana á ári hverju til kvótafjölskyldnanna.
„Það er ekki og hefur aldrei verið sanngjarnt að almenningur niðurgreiði aukinn ójöfnuð með því að gefa eftir veiðigjöld. Það er engin ástæða fyrir launafólk að gefa örfáum fjölskyldum heilu spítalana á hverju ári.“
Komment