
Kæru Valkyrjur,
Þið eruð íslenskar konur.
Engar aðrar konur í heiminum búa við jafnmikil réttindi og þið.
Engar.
Þið sitjið á þjóðþingi í einu friðsamasta landi heims.
Þið eruð ráðherrar í ríkisstjórn í vellauðugu landi.
Vopnaðar öllum þessum forréttindum og allri þeirri vernd sem íslenskt samfélag veitir ykkur, kjósið þið samt að hvísla.
Vitið þið hver kjósa að tala upphátt?
Fólk sem er langtum berskjaldaðra en þið:
Ungmenni sem eru tilbúin að fórna meistaragráðunni og prófessorar sem eru tilbúnir að fórna starfsferlinum.
Ungir Gyðingar í Evrópu og Bandaríkjunum sem eru tilbúnir að vera úthýst af fjölskyldum sínum.
Bandarískir hermenn sem tóku þátt í hernaði í Mið-Austurlöndum.
Ísraelsk ungmenni sem neita að verða við herkvaðningu og fara frekar í fangelsi.
Mannréttindasamtök í Palestínu sem eru tilbúin að vera sett á alþjóðlega lista yfir hryðjuverkasamtök.
Palestínskir læknar sem hætta frekar á að vera nauðgað til dauða en að yfirgefa sjúklinga sína.
Palestínskir bráðaliðar sem vita að þeir gætu lokið næstu vakt í grunnri gröf, en svara samt hverju útkalli.
Fjölmiðlamenn sem eru tilbúnir að brenna í tjöldunum sínum til þess eins að sýna umheiminum sannleikann.
Til þess eins að sýna ykkur sannleikann.
Guðný Nielsen, verkfræðingur úr Garðabænum.
Komment