
Tyrkneski doktorsneminn sem rænt var af dulbúnum lögreglumönnum í Bandaríkjunum á dögunum verður ekki send úr landi í bráð.
Alríkisdómari í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur nú lagt tímabundna stöðvun á brottflutning Rumeysa Ozturk úr landi en hún er doktorsnemi við Tufts-háskóla í ríkinu. Á þriðjudaginn var hún handtekin af dulbúnum lögreglumönnum nærri heimili sínu og hún dregin inn í bifreið og keyrt á brott. Var hún síðan svipt dvalarleyfi.
Yfirvöld í Bandaríkjunum gáfu þá útskýringu að Ozturk hefði orðið uppvís að því að styðja Hamas-samtökin á Gaza, án þess þó að skýra frekar sakarefnin. Fyrir ári var Ozturk meðhöfundur nemendagreinar þar sem skólayfirvöld við Tufts-háskóla voru hvött til þess að viðurkenna þjóðarmorð á Gaza og sniðganga Ísrael.
Þvert á tilskipun um að hún yrði ekki flutt úr Massachusetts án tveggja sólarhringa fyrirvara, var hún flutt til Louisiana.
Samkvæmt frétt RÚV leitaði lögmaður hennar til alríkisdómstóls í Massachusetts ásamt Samtökum um borgaraleg réttindi (ACLU), á þeim grundvelli að brotið væri á rétti Ozturks til tjáningarfrelsis sem og réttlátrar málsmeðferðar.
Tók alríkisdómari þá ákvörðun á föstudaginn að Bandaríkjastjórn yrði að bregðast við málsókninni og lagði tímabundið bann við því að Ozturk yrði flutt af landi brott.
Hörð viðbrögð urðu við handtöku Ozturks en fjölmenn mótmæli hafa verið haldin við Tufts-háskóla í vikunni en talsmaður tyrkneska utanríkisráðuneytisins sagði að verið sé að reyna að fá nemandann leystan úr haldi.
Að eigin sögn hefur stjórn Donalds Trump svipt meira en 300 manns dvalarleyfi en marga þeirra fyrir óskýrar sakir.
Komment