
Anna Kristjánsdóttir segist ekki hafa miklar áhyggjur af Rússum og Kínverjum en telur Bandaríkin mögulega ógn við Ísland.
Í dagbókarfærslu sinni, sem vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir skrifaði á Facebook í gær talar hún um ástandið í heiminum og mögulega ógn sem gæti steðjað að Íslandi.
„Dagur 2054 – Ó, þetta er indælt stríð.
Fyrir nærri sex áratugum síðan var söngleikurinn „Ó, þetta er indælt stríð“ sýnt á fjölum Þjóðleikhússins. Ekki man ég út á hvað söngleikurinn gekk, enda sá ég hann aldrei, en miðað við fréttir gærdagsins stefnir allt í almenna herkvaðningu á Íslandi, en nú er bara spurningin, við hverja á að berjast? Færeyjar? Kalaallit Nunaat? Vestmannaeyjar?
Ég hefi litlar áhyggjur af Rússum né Kínverjum. Við vitum ósköp vel að bæði Bandaríkin og Sovétríkin stunduðu njósnir á Íslandi meðan á kalda stríðinu stóð og nú eru þau bæði á fullu á nýjan leik, reyndar núna undir stjórn Trumps og Pútins. Ef ég ætti að giska á hvort stórveldið væri Íslendingum hættulegra miðað við stöðuna í dag, myndi ég ekki hika við að nefna Trumpistan.“
Anna rifjar því næst upp að liðin séu 216 ár síðan Ísland státaði síðast af landher en að Jörundur hundadagakonungur hafi klúðrað sínum málum rækilega.
„En það er ekki mitt að reyna að greina stöðu mála norður í Dumbshafi, en ef mig misminnir ekki, eru liðin 216 ár frá því Ísland var síðast með landher undir vopnum, en það mun hafa verið sumarið 1809, en góðu heilli tókst Jörundi hundadagakonungi að klúðra sínum málum svo rækilega að hann var sendur úr landi í böndum. Að sjálfsögðu tel ég ekki með þessa drengi sem áttu að gæta flugvallarins í Kabúl fyrir kannski tveimur áratugum síðan.“
Að lokum segist Anna ekki óttast herkvaðningu, og það af fleiri en einni ástæðu:
„Sem betur fer er ég víðsfjarri og þarf ekki að óttast herkvaðningu, ekki bara vegna aldurs, heldur svo slæmrar sjónar að ég myndi ekki hitta andstæðing þótt hann stæði fyrir framan mig í tveggja metra fjarlægð og ég sem montaði mig af góðri sjón fyrir örskömmu síðan. Að auki kann ég ekkert með vopn að fara og langar ekkert til að læra á þau. Ég er friðarsinni.“
Komment