
Anna Sigrún Ásgeirsdóttir hefur nú endurheimt hlaupahjól níu ára dóttur sinnar en því var stolið fyrir rúmri viku síðan af síbrotapari.
Anna Sigrún brá á þá ráð að leita á náðir Facebook og bað fólk um að láta sig vita ef þau hefðu einhverjar upplýsingar um hjólið.
Mannlíf gerði frétt af stuldinum í gær en nú er hjólið komið aftur í hendurnar á dóttur Önnu Sigrúnar. Í samtali við Mannlíf segir Anna Sigrún að maður í neyslu hefði fengið hjólið frá síbrotaparinu alræmda en ákveðið að skila því er hann sá frétt Mannlífs.
„Það hringdi í mig kona sem sagði mér að bróðir hennar sem væri í neyslu hefði fengið hjólið hjá þeim sem stálu því og séð fréttina hjá ykkur. Hann fór með hjólið til systur sinnar sem kom því til mín, stelpunni til mikillar gleði. Það eru ekki allir fíklar slæmir,“ segir Anna Sigrún afar þakklát samfélaginu.
Komment