
Í dag, 1. apríl er eini dagur ársins þar sem það er almennt samþykkt að fólk, fyrirtæki og fjölmiðlar ljúgi að almenningi.
Í gegnum árin hafa misgóð göbb litið dagsins ljós í fjölmiðlum en sem dæmi má nefna Aprílgabb Vísis árið 1977, sem reyndar rættist löngu síðar en þar var fullyrt að skákmeistarinn Bobby Fischer ætlaði sér að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Árið 1954 birti Tíminn frétt um fljúgandi disk sem hefði lent á Mýrdalssandi en það reyndist Aprílgabb. Þá er einnig hægt að nefna gabbfréttina þar sem sagt var að McDonalds-skyndibitakeðjan hefði farið í mál við Kópavogskirkju vegna líkinda á kirkjunni og McDonalds-merkinu.
En hvaða Aprílgöbb má finna í fjölmiðlum á Íslandi í dag? Hér má sjá nokkur dæmi.
Þó að almenna reglan með 1. apríl sé að láta fólk hlaupa apríl, það er að segja plata það í erindisleysu, helst yfir þrjá þröskulda, þá fara ekki allir eftir þeirri reglu.
Nokkrir landsbyggðarmiðlar tóku höndum saman og komu með sama Aprílgabbið. Skessuhorn, Austurfrétt og Víkurfréttir ákváðu að nýta samfélagsmiðlana í gabbi sínu en miðlarnir birtu frétt um fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að setja 24% virðisaukaskatt á samfélagsmiðla og streymisveitur og er SÍS sagt hvetja fólk til þess að birta ákveðna mynd á samfélagsmiðla sína til að mótmæla.

Krónan er eitt af þeim fyrirtækjum sem er með gabb í dag. Verslunin nýtir samfélagsmiðla til þess að gabba almenning með tilkynningu þar sem sagt er frá nýrri lúgu við verslunina í Garðabæ nokkuð er lagt í gabbið þar sem ljósmynd er sýnd sem á að sýna lúgu. Í tilkynningunni segir að þetta sé liður í að þjónusta neytendur enn betur en áður en að takmarkið séu 10 vörur.

Hagkaup er annað fyrirtæki sem lætur fólk hlaupa apríl í dag en er í samstarfi við Mbl.is. Verslunin birti á Facebook platfrétt frá mbl.is um ókeypis hjónavígslur sem hægt væri að fá í dag í Hagkaupum.

Nútíminn nýtir sér áhuga landans á Donald Trump, Bandaríkjaforseta en þar segir að Trump hafi neyðst til að segja af sér eftir afhjúpun Rússlandsforseta. Er Pútín sagður hafa sýnt gögn sem sýndu fram á að Trump hefði unnið fyrir Rússnesku leyniþjónustuna síðan 2014. Eru lesendur síðan gabbaðir til þess að ýta á hlekk sem á að sýna frá beinni útsendingu frá Hvíta húsinu en þess í stað kemur hlekkur á Rick Astley syngja Never Gonna Give You Up.

Vísir birti gabbfrétt af Sveini Waage sem þóttist vera orðinn þreyttur á áreitinu sem hann hafi orðið fyrir sem eigandi Teslu-bifreiðar. Svo þreyttur væri hann að hann ætlaði sér að selja bílinn fyrir slikk.

Víkurfréttir var eins og áður segir í samkurli með Skessuhorni og Austurfrétt í sínu Aprílgabbi en bætti þó um betur og birtu hvorki meira né minna en tvær aðrar platfréttir á vef sínum. Sú fyrri segir frá því að skrokkur Boeing 757 farþegaþotu hafi verið fluttur með pramma að ströndinni við Sandvík á Reykjanesi. Ætlunin sé að koma vélinni fyrir á svarta sandinum, rétt ofan flæðamáls, sem hluti af verkefni sem snýr að því að laða ferðamenn að svæðinu. Við fréttina var birt ansi raunverulega ljósmynd af flugvélaskrokknum í togi í sjónum.

Hin fréttin er öllu sérkennilegri en þar segir frá kettlingi sem fæddist með tréfót í Grindavík. Ímyndunarafl Víkurfréttamanna er ansi gott en í fréttinni er talað um sagnfræðing sem segir frá sjóræningjaketti sem hafi sloppið í land þegar Alsíringar komu í land í Grindavík í Tyrkjaráninu en hann hafði einmitt tréfót og var með lepp. Þá er talað við erfðafræðing sem segir að um einstakt tilfelli sé að ræða.

Þá var Akureyri.net með Aprílgabb um tilraun til þess að opna Vínbúð í herrafatadeild JRJ-hússins en styr hafa verið vegna áforma ÁTVR að loka Vínbúðinni í miðbæ Akureyrar.
Komment