
„Það er líklega eingöngu tímaspursmál hvenær bandarískir ráðamenn munu tala um mikilvægi þess að þeir ráði yfir Íslandi,“ segir Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, í viðvörunarorðum á Facebook.
Hann segir að Trump-stjórnin „reki afdráttarlausa útþenslustefnu“ og að ríki í Norður- og Mið-Ameríku velji á milli þess að vera hluti Bandaríkjanna eða leppríki þeirra. Þá muni koma að Íslandi.
„Trump og Pútín færast sífellt nær 19. aldar stórveldispólitík sem felst í því að skipta heiminum á milli stórvelda. Kína er ekki fráhverft þessari stefnu. Þeir hafa þegar lagt til hvernig Úkraína eigi að skiptast á milli þeirra. Georgía er orðin leppríki Rússlands. Bandaríkin munu á næstunni ekki gera athugasemd við útþenslustefnu Pútín í hans næsta nágrenni. Rússland gerir enga athugasemd við að Grænland, Panama og Kanada tilheyri áhrifasvæði Bandaríkjanna og verði gerð að leppríkjum. Það sama mun eiga við um Ísland,“ segir Baldur.
Í vikunni hélt Vladimir Pútín Rússlandsforseti erindi um sögulegt tilkall Bandaríkjanna til Grænlands og Ísland á 19. öldinni.
„Stóra spurning núna er hvort að nýir valdhafar í Washington muni krefjast þess að Ísland snúi sér alfarið að Bandaríkjunum og láti allar hugmyndir um nánari varnar- og efnahagssamvinnu og viðskipti við önnur Evrópuríki lönd og leið,“ bætir Baldur við.
Hann telur líkur á því að Bandaríkin beiti sér gegn mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. „Nýir valdhafar telja að Evrópusambandið vinni gegn hagsmunum Bandaríkjanna og að Grænland eigi að tilheyra Bandaríkjnum. Í ljósi þessa kæmi ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld beittu sér gegn því að Íslandi tæki aftur upp aðildarviðræðurnar við ESB.“
Komment