
Banaslys varð á Suðurlandsvegi, rétt vestan við Holtsós í dag þegar grjóthrun varð úr Steinafjalli. Lenti stórt grjót á bifreið sem ók í austurátt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Þrjár erlendar konur voru í bifreiðinni en ökumaður bifreiðarinnar lést í slysinu. Hinar tvær sluppu með minniháttar áverka og voru fluttar á sjúkrahús til frekari skoðunar.
Klukkan 12:42 barst viðbragðsaðilum tilkynning um slysið en þegar viðbragðaðilar komu á vettvang var ökumaðurinn ennþá klemmdur fastur inni í henni og var hún úrskurðuð látin á vettvangi, samkvæmt lögreglunni.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi sér um rannsóknina en hún nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ennþá er Suðurlandsvegur lokaður en búist er við því að hann opni á næstu mínútum.
Komment