
Samfélagsrýninn Björn Birgisson frá Grindavík gagnrýnir nýtt slagorð Ungra Miðflokksmanna harðlega í færslu á Facebook, þar sem hann segir slagorðið endurspegla þröngsýna og útilokandi heimsmynd.

Björn vísar til þess að ungt fólk innan Miðflokksins hafi tekið upp slagorðið „Ísland fyrst, svo allt hitt“ í aðdraganda landsfundar flokksins um helgina og bendir á að það sé „sótt í smiðju öfgasinnaðra hægriflokka bæði austanhafs og vestan.“
Í færslu sinni nefnir hann að „Snorri Másson, nýkjörinn varaformaður Miðflokksins, er á þessari línu“, og hafi í þingræðu talið upp nokkur verkefni sem Ísland styður erlendis, en tekið skýrt fram að „fyrst ætti að hlúa að okkar fólki sem væri í vandræðum.“
Björn gagnrýnir þá afstöðu að Ísland eigi ekki að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegu hjálparstarfi. Hann skrifar að Snorri „vilji ekki að við hjálpum fólki á Gaza. Ekki í Úkraínu heldur. Ekki í Afríku.“
„Íslendingar eigi að nota alla þá peninga sem rata í ríkiskassann hér innanlands og verkefnin séu næg,“ skrifar Björn og bætir við að þessi hugsun veki upp spurningar:
„Ef skoðanabræður Miðflokksins leggðu undir sig heiminn yrði þá klippt á allt hjálparstarf á milli landa og heimsálfa?“
Hann spyr jafnframt hvort Ísland mætti búast við að engar þjóðir kæmu til aðstoðar ef landið lenti í erfiðleikum, líkt og á fjármálahrunsárunum.
„Hvers konar músarholu og molbúa hugsunarháttur er þetta eiginlega?“ spyr Björn og heldur áfram:
„Hvers vegna þarf endilega að takmarka aðstoð við fólk í algjörri neyð og lífshættu við einhver landamæri?“
Björn segir að um sé að ræða „efnahagslega Apartheid stefnu“ sem bitni harkalega á fólki í mestri neyð og hörmungum.
Í færslunni dregur hann einnig upp mynd af því hvernig þessi hugsunarháttur gæti komið fram innanlands:
„Ef snjóflóð, eldgos, eða skriðuföll eyðileggja allar veraldlegar eigur og taka mannslíf við einhverjar tilteknar götur í bæjarfélagi, eigum við þá eingöngu að aðstoða fólkið sem er með íslenska kennitölu?“
Björn endar færslu sína á því að fordæma stefnu flokksins í þessum málum:
„Kæru vinir. Ykkur finnst kannski fast eða harkalega að orði komist, en mér finnst stefna Miðflokksins í þessum málum algjör músarholu- og molbúastefna. Huglægur kærleikurinn er settur á aðra vogarskálina og fjármunir á hina og þar sigra þeir alltaf.“
Komment