
Blaðamenn hafa á undanförnum vikum fengið mikla gagnrýni fyrir skrif sín um mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur en Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, lenti því frá eigin ritstjóra samkvæmt Orðinu á götunni á DV.is.
Ástæðan er sú að Kolbrún skrifaði pistil í helgarblað Morgunblaðsins síðustu helgi þar sem hún gagnrýndi Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, harðlega í samhengi við mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns og fyrrverandi ráðherra.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að gera þetta mál að pólitísku máli. Það skal djöflast í forsætisráðherra eins og hægt er og saka Kristrúnu Frostadóttur um illar hvatir. Flokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir, hefur komist nálægt því að gjaldfella sjálfa sig með stöðugu rápi upp í ræðustól Alþingis og farið þar með sömu fáránlegu ásakanirnar um meint trúnaðarbrot og lygar forsætisráðherra,“ skrifaði Kolbrún.
Hún hélt áfram: „Maður hlýtur að spyrja sig á hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn sé. Þjóðin hafnaði flokknum rækilega í síðustu kosningum og sitthvað hefðu sjálfstæðismenn átt að læra af því. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hjalað um það í allnokkurn tíma að breikka þurfi flokkinn og koma stefnumálum vel til skila svo að þjóðin fáist til að kjósa flokkinn. Nú virðist enginn hafa tíma til að sinna þessum brýnu verkefnum því það er talið svo ofur nauðsynlegt að gala á forsætisráðherrann.“
Samkvæmt frásögn DV var Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra, sendur til Kolbrúnar til að láta vita að það væri ekki í lagi að blaðamenn skrifi svona um Sjálfstæðisflokkinn. Þá hafi Kolbrún hækkað rödd sína talsvert og sagt að ef yfirmenn hennar hefðu eitthvað út á hennar skrif að setja gætu þeir rekið hana og borgað henni sex mánaða uppsagnarfrest.
Í samtali við Mannlíf staðfesti Kolbrún sögu DV í grófum dráttum en vildi ekki meina að um alvarlegt atvik hafi verið að ræða.
„Við Andrés höfum mjög ólíkar skoðanir á mjög ólíkum hlutum þannig að það er ekkert nýtt að það hafi komið til orðaskipta okkar á milli og við erfum það ekki hvort við annað. Við erum búin að þekkjast í áratugi og það er ekkert nema gott á milli okkar,“ sagði Kolbrún skellihlæjandi í samtali við Mannlíf.
Komment