
Boðað hefur verið til mótmæla vegna brottvísunar Oscars, 17 ára drengs
frá Kólumbíu sem til stendur að senda úr landi. Samtökin No Borders Iceland segjast veita Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur frest út skrifstofutíma til að stöðva brottvísun.
Samtökin No Borders Iceland boða til mótmæla fyrir framan dómsmálaráðuneytið klukkan níu í fyrramálið. Þar verður brottvísun hins kólumbíska Oscars Andres Florez Bocanegra mótmælt og verður Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra afhent krafa um að brottvísun drengsins verði stöðvuð fyrir lok hefðbundins skrifstofutíma á morgun.
Oscar, sem áður hefur verið fjallað um í fjölmiðlum en athygli vakti þegar lögreglan sótti hann inn á salerni Flensborgarskólans þar sem hann stundaði nám, í október í fyrra, til þess að vísa honum úr landi ásamt ofbeldisfullum föður hans. Hann átti 17. ára afmæli á laugardaginn. Í frétt á mbl.is kemur fram að fósturforeldrar Oscars hér á landi, Svavar Jóhannsson og Sonja Magnúsdóttir hafi sótt hann aftur til Kólumbíu í fyrra og komið honum aftur til Íslands. Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu að hann fái ekki að búa hér á landi og ætlar sér að brottvísa honum á morgun, þriðjudaginn 22. apríl.
Í texta sem fylgir boðun á mótmælin á Facebook segir meðal annars að Oscar hafi flúið Kólumbíu með föður sínum eftir að glæpagengi hótaði þeim lífláti. Faðir hans hafi síðar beitt hann ofbeldi og afsalað sér forræði yfir honum. Endaði Oscar á götunni þegar hann var sendur úr landi í fyrra, þar til fósturforeldrar hans sóttu hann.
Hér fyrir neðan má lesa texta No Borders Iceland í heild sinni:
„Mótmælum brottvísun Oscar!
Samstöðufundur og kröfuafhending í Dómsmálaráðuneytinu
Þriðjudaginn 22. apríl kl. 09:00
Borgartún 26, Reykjavík
Við komum saman fyrir utan Dómsmálaráðuneytið og afhendum Þorbjörgu
Sigríði Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra, kröfu þess efnis að
brottvísun Oscars verði stöðvuð fyrir lok hefðbundins skrifstofutíma
sama dag.
Nú er tækifæri til þess að falla frá stefnu forvera sinna í ráðuneytinu,
breyta rétt og taka upp mannúðlegri stefnu í málefnum barna á flótta.
Áður en gengið verður inn verða haldin stutt ræðuhöld.
Höfnum ofbeldi Útlendingastofnunar.
Krefjumst mannúðar.
EKKI Í OKKAR NAFNI.
Frekari upplýsingar um málið:
Oscar Anders Bocanegra Florez er 17 ára drengur frá Kólumbíu. Honum á að
vísa úr landi fyrir lok dags þriðjudaginn 22. apríl – þrátt fyrir að búa
hjá íslenskri fósturfjölskyldu sem hefur tekið hann að sér af alúð og
ábyrgð.
Oscar flúði til Íslands með föður sínum árið 2022 eftir að glæpamenn í
Kólumbíu hótuðu þeim lífláti.
Faðir Oscars beitti hann síðar ofbeldi og afsalaði sér forræði. Í
október 2024 var Oscar sendur úr landi með föður sínum og endaði einn á
götunni í Bogotá – einni hættulegustu borg heims, þar sem hann var í
mánuð áður en fósturfjölskyldan sótti hann og kom honum aftur til
Íslands.
Nú ætlar Útlendingastofnun að vísa honum aftur úr landi – á sama stað og
hættan bíður hans.
Oscar segir: „Ég get það ekki. Þeir vilja drepa mig þar.“
Höfnum ofbeldi Útlendingastofnunar.
Krefjumst mannúðar.
EKKI Í OKKAR NAFNI.“
Komment