Rapparinn Daníel Alvin Haraldsson gaf út í síðustu viku plötuna djé alvin en Daníel hefur verið einn þekktasti rappari landsins undanfarin 19 ára eftir að hann sigraði Rímnaflæði árið 2006.
Hann tók sér þó langa pásu en snéri aftur til leiks árið 2023 með plötu og hefur ekki stoppað að gera tónlist síðan þá. Mannlíf ræddi við rapparann um plötuna og lífið.
„Ég lagði allt í þessa plötu, en hún er búin að vera 10 mánuði í vinnslu,“ sagði rapparinn um plötuna. „Munurinn á þessari plötu er líka gæðin. Ég fékk elítu teymi með mér á þessa plötu og er fáranlega þakklátur fyrir það. Platan sem kom út 2023 fór rosalega mikið undir radarinn og var líka kannski meira „laid back,“ en þessi plata er meira kannski „energetic“ og „powerful“,“ en sú plata hét Þetta Líf. Margir góður gestir eru á nýju plötunni og er hægt að nefna JóaPé, Kristmund Axel og Saint Pete í því samhengi.
„Það er svo erfitt að gera upp á milli barnanna sinna,“ sagði Daníel hlæjandi þegar hann er spurður um uppáhalds lagið á nýju plötunni og segir að lagið Heim með Birtu Birgisdóttur, eiginkonu sinni, liggi nærri hjarta hans.
„Vegna þess að þetta er fyrsta lagið sem við gefum út saman, sem er sturluð staðreynd þar sem við erum búin að vera saman í 9 ár og hún er besta söngkona sem við Íslendingar eigum. Heim er líka samið um strákanna okkar og er bara mjög fallegt og einlægt lag. Ég gerði sirka tíu útgáfur af þessu lagi þar sem ég söng viðlagið. Ég er svo fokking glaður að ég hafi fengið þá flugu í hausinn að fá Birtu til að syngja það, þá fyrst var það „complete“.“

En hver er staðan á íslensku rappi í dag?
„Íslenskt rapp er í heild sinni búið að taka bara mikið stökk. Ég er líka bara svo ánægður með hvernig íslenskt rapp er orðið rapp aftur ef þú veist hvað ég á við,“ sagði Daníel hlæjandi. „Pési [innskot blaðamanns: Saint Pete] finnst mér ruddi brautina svolítið fyrir því aftur og ég elska það,“ hélt hann áfram.
„Planið er að halda áfram bara, halda áfram að gefa út tónlist. Mig langar alveg að gefa kannski út tónlistarmyndband, það er smá dautt en ég kann alveg að meta tónlistarmyndbönd og mér finnst það mega alveg „kicka“ aftur inn. Annars voru útgáfutónleikar á Prikinu á laugardaginn, þar sem allir gestir á plötunni komu fram, það var helvítis veisla, svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér,“ sagði Daníel um framtíðina.

En ertu byrjaður að hugsa um næstu plötu?
„Ég er alveg með möppu í símanum mínum merkt „djé Alvin II“, ætla ekkert að ljúga,“ segir Daníel brosandi. „En ég held ég fókusi bara aðeins á þessa plötu og „singles“ í smá tíma, en alltaf gott að eiga lög í vopnabúrinu.“

Komment