
Bandaríski dómsmálaráðherrann Pam Bondi óskaði í dag eftir því að alríkissaksóknarar krefðust dauðarefsingar yfir Luigi Mangione, sem er sakaður um að hafa skotið bandarískan forstjóra heilbrigðisþjónustu í bíræfinni árás.
„Morð Luigi Mangione á Brian Thompson, saklausum manni og föður tveggja ungra barna, var fyrirfram skipulögð, kaldrifjuð aftaka sem skók Bandaríkin,“ sagði Bondi í yfirlýsingu.
„Eftir vandlega íhugun hef ég gefið alríkissaksóknurum fyrirmæli um að krefjast dauðarefsingar í þessu máli.“
Bondi kallaði morðið einnig „pólitískan ofbeldisverknað“ sem „gæti hafa stefnt fleiri mannslífum í hættu.“
Mangione er ákærður bæði fyrir ríkis- og alríkisdómstóli fyrir morðið á Thompson, sem var forstjóri UnitedHealthcare. Í ríkismálinu hefur Mangione neitað sök og gæti átt yfir höfði sér ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn ef hann verður fundinn sekur.
Samkvæmt alríkissaksóknurum elti Mangione Thompson snemma morguns 4. desember, gekk að honum aftan frá og skaut á hann nokkrum sinnum með skammbyssu sem var búin hljóðdeyfi. Hann hafði ferðast með rútu frá Atlanta til New York um tíu dögum fyrir glæpinn.
Mangione var handtekinn í Altoona, Pennsylvaníu, 9. desember eftir ábendingu frá starfsfólki McDonald’s veitingastaðar, eftir nokkurra daga leit.
Verjandi hans, Karen Friedman Agnifilo, hefur kallað eftir skýringum á því hvernig samtímis alríkis- og ríkisákærur muni virka í þessu máli og sagðist telja að aðstæðurnar væru „afar óvenjulegar.“
Morðið á Thompson vakti upp mikla reiði í samfélaginu gagnvart arðvænlegu heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, og margir notendur samfélagsmiðla lýstu Mangione sem hetju.
Komment