
Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti á fimmtudag fyrsta „gullkortið“, sérstakt dvalarleyfi sem selt verður fyrir 5 milljónir Bandaríkjadala hvert, um borð í forsetaflugvélinni Air Force One.
Trump hélt á sýnishorni kortsins sem bar andlit hans og áletrunina „The Trump Card“ („Trump-kortið“), og sagði við fréttamenn að sérstöku dvalarleyfin yrði líklega hægt að fá „innan tveggja vikna“.
„Ég er fyrsti kaupandinn,“ sagði hann. „Spennandi, er það ekki?“
Trump hefur áður sagt að sala á þessu nýja dvalarleyfi, sem er lúxusútgáfa af hinu hefðbundna „green card“, myndi laða að atvinnuskapendur og gæti nýst til að draga úr ríkisskuldum Bandaríkjanna.
Milljarðamæringurinn og fyrrum fasteignakóngurinn, sem hefur gert brottvísun milljóna óskráðra innflytjenda að forgangsmáli í sinni annarri forsetatíð, sagði að nýja kortið gæti orðið leið til að öðlast bandarískan ríkisborgararétt – sem margir sækjast eftir.
Í febrúar sagði hann að ríkisstjórn hans stefndi að því að selja „kannski eina milljón“ slíkra korta og útilokaði ekki að rússneskir auðjöfrar gætu einnig verið gjaldgengir.
Komment