
Tveir einstaklingar gista nú fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir daginn en 54 mál voru skráð í kerfi lögreglunnar frá 05:00 í morgun til 17:00. Hér má líta nokkur dæmi.
Lögreglan á Hverfisgötu handtók mann sem grunaður var um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslur fíkniefna. Kom síðan í ljós að maðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Var hann hann fluttur í hefðbundið ferli á lögreglustöð.
Sama lögregla handtók tvo menn grunaða um innbrot í bifreið. Reyndist annar þeirra vera með ætluð fíkniefni í fórum sínum. Voru þeir fluttir á lögreglustöð vegna málsins og var annar þeirra vistaður í fanglaklefa.
Þá var konu vísað út úr mannlausu og yfirgefnu húsi og komið í betra skjól.
Lögreglan hafði einnig afskipti af manni í miðborginni sem var með ógnandi hegðun. Var málið leyst með samtali.
Nokkrir ökumenn voru aukreitist sektaðir fyrir að vera ekki með öll lögboðin ljós á bifreiðum sínum í lagi og tveir til viðbótar voru sektaðir fyrir að aka réttindalausir. Sá þriðji var svo kærður fyrir að aka gegn rauðu ljósi.
Lögreglan sem starfar í Kópavogi og í Breiðholti fékk tilkynningu um umferðaróhapp þar sem bifreið var ekið á ljósastaur. Engin slys urðu á fólki en bíllinn er óökufær og var fjarlægður af vettvangi með dráttarbifreið.
Þá barst lögreglunni sem annast útköll í Hafnarfirði og Garðabæ, tilkynning um vinnuslys í bakaríi. Reyndust áverkar vera minniháttar.
Einnig barst tilkynning um umferðaslys þar sem ökumaður lét sig hverfa frá bifreið sinni enda óökufær. Rannsókn lögreglunnar leiddi til þess að kona var handtekin grunuð um að hafa ollið slysinu, sem og akstur undir áhrifum áfengis. Var hún vistuð í fangaklefa vegna málsins og bifreið hennar var dregin af vettvangi með dráttarbíl.
Komment