
Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) hafa ákveðið að fella niður fyrirhugað aukaþing í nóvember, þar sem greiða átti atkvæði um hvort Ísrael mætti áfram taka þátt í Eurovision. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Til stóð að halda atkvæðagreiðsluna að beiðni nokkurra aðildarþjóða sem voru ósáttar við stöðu mála og höfðu hótað að draga sig úr keppninni ef Ísrael yrði áfram með.
Í tilkynningu frá EBU í dag kemur fram að ákvörðunin um að aflýsa þinginu sé tekin í ljósi friðarviðræðna á Gaza. Málið verður þess í stað tekið fyrir á reglulegu þingi samtakanna í desember.
Ríkisútvarpið átti að fjalla um málið á stjórnarfundi í lok mánaðar, þar sem ákveða átti hvort Ísland myndi styðja brottvísun Ísraels úr keppninni eða ekki.
Komment