
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í viðtali í gær að Bandaríkin myndu „100%“ innlima Grænland og sagðist ekki útiloka að beita hervaldi.
Agli Helgasyni fjölmiðlamanni er nóg boðið og vill að Íslendinga láti í sér heyra.
„Þetta er komið út fyrir allan þjófabálk - að hafa í sífelldum hótunum við friðsælt, vita meinlaust, vinveitt lýðræðisríki. Jafnvel að senda á það herlið,“ segir Egill á Facebook.
„Við Íslendingar getum heldur ekki sætt okkur við þessa framkomu gagnvart vinum okkar á Grænlandi.“
Fjölmargir taka undir með Agli.
Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingmaður VG, gagnrýnir stuðningsleysi Norðurlandanna.
„Forsætisráðherrar Norðurlandanna og pólitísk forystusveit þeirra mætti vera mun skýrari í stuðningi sínum við Grænlendinga og heimsækja landið heim í þeim tilgangi að sýna þeim stuðning,“ segir hann.
„Af hverju hefur íslenska ríkissstjórnin ekki heimsótt Grænland og lýst yfir stuðningi við það?“ spyr Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur.
Donald Trump sagði í gær að honum væri sama hvaða skilaboð það myndi færa að taka yfir Grænland. „Ég hugsa ekki um það. Mér er í rauninni alveg sama. Grænland er allt öðruvísi mál. Þetta er alþjóðlegur friður. Alþjóðlegur friður og styrkur.“ Hann heldur því fram að innlimun Grænlands í Bandaríkin sé nauðsynleg vegna skipasiglinga Rússa og Kínverja í norðurhöfum.
Ríkisstjórn Íslands hefur talað varlega um aðfarir Bandaríkjanna að Grænlandi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði þó í gær að heimsókn JD Vance til Grænlands væri „frekar dapurleg“. „Það verður aldrei nógu oft sagt að það á virða fullveldi ríkja. Það á að virða alþjóðalög,“ sagði hún við RÚV.
„Danmörk og Grænland eru í norrænu fjölskyldunni. Líkt og Ísland og önnur Norðurlönd er allt ríki Danmerkur hluti af NATO, þar sem bandamenn vinna þétt saman við að styrkja öryggi á Norðurslóðum. Gagnkvæm virðing og samvinna bandamanna er eina leiðin fram á við,“ skrifaði hún á samfélagsmiðlinum X, sem er í eigu Elons Musk, stuðningsmanns og samstarfsmanns Trumps.
Trump virðist ekki hafa tekið það til sín. Sama dag sagðist hann ekki útiloka að beita hervaldi til að komast yfir Grænland.
Komment