Myndlistamaðurinn Elli Egilsson er nýjasti gestur í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar en í þættinum ræðir hann ýmislegt meðal annars vinnu sína, Herra Hnetusmjör og ferðlög sín um heiminn.
Hann ræðir einnig ákvörðun sem hann og María Birta, leikkona og eiginkona hans, tóku sem hefur haft mikil áhrif á þeirra líf.
„Við María eigum rosalega fallegt samband og erum mjög þakklát að eiga hvort annað að. Tengingin hefur svo bara dýpkað eftir að börnin komu inn í spilið,“ segir listamaðurinn.
„Það er langt og flókið ferli að verða fósturforeldri í Nevada og það er gengið mjög vel úr skugga um að barnið sé að koma í góðar aðstæður. Við erum búin að vera með átta fósturbörn á síðustu fjórum árum. Sem er mjög mikið ef maður hugsar út í það að öll þessi börn hafa verið nýfædd þegar við höfum tekið þau að okkur. Við höfum svo ættleitt tvær stelpur af þessum átta börnum. Við eigum núna tvær dætur og erum með einn fósturson núna hjá okkur, þannig að við erum með þrjú börn undir þriggja ára aldri, sem er svolítið mikið, sérstaklega þegar það eru enginn amma og afi eða frændi og frænka á svæðinu til að létta undir með okkur. En það sem við fáum út úr þessu er eitthvað sem er eiginlega ekki hægt að koma í orð. Við erum að þessu út af börnunum og það að fá að gera allt sem maður getur til að gefa þeim gott start út í lífið er eitthvað það besta sem hægt er að gera. Ég upplifi þetta þannig að tilgangurinn minn í lífinu sé fundinn. Hjartað mitt er svo fullt og það að við María fáum að upplifa þetta saman er stórkostlegt.“
Komment