
Fulltrúar Félagsins Ísland-Palestína funduðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra fyrir stuttu þar Félagið kom á framfæri kröfur mótmælanda sem stutt hafa málstað Palestínu allt frá því að þjóðarmorð Ísraels hófst í október 2023.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Félaginu Ísland-Palestína að Félagið hafi lagt fram á fundinum skýrslur og rannsóknir alþjóða- og mannréttindastofnana á þjóðernishreinsunum, þjóðarmorði og stríðsglæpum Ísraels, sem og bráðabirgðaúrskurði Alþjóðadómstólsins varðandi kæru Suður-Afríku, brot Ísraela á vopnahléssamingni og ábyrð Íslands samkvæmt alþjóðalögum. Er Þorgerði Katrínu þakkað fyrir að leggja fram sjálfstæða greinargerð til Alþjóðadómstólsins um lagalegar skyldur Ísraersstjórnar til að tryggja viðveru og starfsemi meðal annars Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu. Er hún ennfremur hvött til þess að gera það sama varðandi kæru Suður-Afríku á hendur Ísrael.
Í fréttatilkynningunni segir að kveðið hefði við nýjan tón þegar Þorgerður Katrín tók við utanríkisráðuneytinu við stjórnarskiptin, þegar snýr að málefnum Palestínu en Félagið minnti ráðherrann á þær efndir sem stjórnarliðar lofuðu í aðdraganda þingkosninganna, en þau loforð snéru meðal annars að viðskiptaþvingunum áhendur Ísrael. Þá var einnig minnt á niðurstöður könnunar sem félagið gerði í september síðastliðnum sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti þátttakenda væru hlynnt viðskiptaþvingunum á Ísrael og svipaður meirihluti væri fyrir því að Íslands sliti stjórnmálasamstarfi við Ísrael.
Fram kemur einnig í tilkynningunni að orð án aðgerða séu einskis virði og að félagið muni halda áfram að þrýsta á yfirvöld og gefa í, þar til gengist hefur verið við vilja meirihluta þjóðarinnar.
Hér má lesa fréttatilkynninguna í heild sinni:
„Fulltrúar Félagsins Ísland-Palestína funduðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra, aðstoðarmönnum hennar og sérfræðingum hjá Utanríkisráðuneytinu í síðustu viku. Félagið kom þar á framfæri kröfum mótmælenda sem hafa mótmælt fyrir utan ríkisstjórnarfundi og mætt í mótmælagöngur síðustu vikur, og raunar allt frá því að þjóðarmorð Ísraels á Gaza hófst í október 2023.
Félagið lagði fram skýrslur og rannsóknir alþjóða- og mannréttindastofnana á þjóðernishreinsunum, þjóðarmorði og stríðsglæpum Ísraels, bráðabirgðaúrskurði Alþjóðadómstólsins er varða kæru Suður-Afríku, brot Ísraela á vopnahléssamningi og ábyrgð Íslands samkvæmt alþjóðalögum.
Ráðherra var þakkað fyrir að leggja fram sjálfstæða greinargerð til Alþjóðadómstólsins um lagalegar skyldur Ísraels til að tryggja viðveru og starfsemi m.a. Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA). Ráðherrann var að sama skapi hvött til að gera slíkt hið sama varðandi kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríkis fyrir brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir þjóðarmorð. Þar eru fjórir mánuðir til stefnu.
Jafnframt var rætt um hvað stjórnarliðar innan Samfylkingar og Viðreisnar, þ.á.m. forsætisráðherra höfðu sagt í aðdraganda þingkosninga og lögð áhersla á efndir. Um þau loforð má lesa í greininni Lokaviðvörun til ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur sem er í fyrstu athugasemd. Auk þess var ráðherra minnt á niðurstöður könnunar félagsins frá september sl. þar sem 77% aðspurðra sögðust hlynnt viðskiptaþvingunum með og án fyrirvara og 70% fylgjandi slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael með og án fyrirvara. Þar var nánast algjör stuðningur meðal kjósenda Viðreisnar og Samfylkingar. Ítrekað var að það verður að grípa til aðgerða tafarlaust. Sú krafa verður að teljast sanngjörn þar sem stjórnarliðar ríkisstjórnarinnar viðruðu sjálf hugmyndir um slíkar aðgerðir allt síðasta ár.
Við þökkum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur kærlega fyrir fundinn, þann fyrsta sem Félagið Ísland-Palestína á með utanríkisráðherra Íslands síðan í október 2023. Það hefur kveðið við nýjan tón í utanríkisráðuneytinu eftir stjórnarskipti og munar sannarlega um að hafa þar ráðherra sem sýnir vilja til viðræðna um aðgerðir til að stöðva þjóðarmorðið.
Eftir stendur að án aðgerða er samtalið einskis virði. Áætlanir Ísraels eru ljósar og ríkisstjórn Netanyahu fer ekki leynt með þær lengur. Nóg hefur verið rætt, nægir úrskurðir alþjóðadómstóla verið gefnir út, fjölmargar ályktanir SÞ og mat sérfræðinga. Allt þetta liggur fyrir. Þjóðarmorð er yfirstandandi og orð mega sín lítils til að stöðva það. Síðan fundurinn með utanríkisráðherra átti sér stað hefur Ísraelsher orðið uppvís að aftökum á 15 sjúkraliðum palestínska Rauða hálfmánans og forsætisráðherra Ísraels grímulaust lýst yfir að hann muni fylgja eftir áætlun Trump Bandaríkjaforseta um að þjóðernishreinsa Gaza ströndina og fullkomin yfirráð Ísraels yfir svæðinu. Þar skipti tilvera Hamas engu, þetta segir Netanyahu berum orðum. Endalaus skriffinnska kostar mannslíf og hjálpar aðeins Ísrael að halda áfram þjóðarmorði sínu og stríðsglæpum. Við munum því halda baráttu okkar og þrýstingi á ríkisstjórnina áfram af enn meiri krafti þar til gripið er til þeirra aðgerða sem þjóðin hefur kallað eftir frá upphafi. Við bindum vonir við að utanríkisráðherra hafi þor og dug til að fylgja eftir vilja þjóðarinnar í þessu máli með því að standa með alþjóðalagakerfinu og mannréttindum í verki.
Lifi frjáls Palestína!“
Komment