
Heilsusálfræðingur mælir með páskaeggjaáti, þrátt fyrir að tvö páskaegg númer 7 bæti við einu kílói af fitu á líkamann.
„Ef þú hatar gleðina og langar alls ekki að skapa minningar um páskana með börnum og fjölskyldu þá skaltu forðast páskaegg eins og loga vítis,“ segir heilsusálfræðingurinn Ragga nagli, eða Ragnheiður Þórðardóttir, sem hefur reiknað hversu mikið af páskaeggjum þarf til að bæta við kílóum fitu á líkamann. Hún birtir niðurstöðurnar í páskahugvekju.
„Þú þarft 7.700 aukalegar hitaeiningar til að smyrja á þig einu kílói af líkamsfitu. Það eru hitaeiningar sem koma til viðbótar við grunnhitaeiningaþörf þína til að viðhalda líkamsstarfssemi, fóðra heilann og vöðvana,“ segir hún. „Í einu páskaeggi númer fjögur eru 1500 hitaeiningar. Sem þýðir að þú þarft að borða fimm slík yfir páskana til að bæta á þig kílói af mör.“
Þar líkur ekki sögunni, því eina leiðin til að páskaegginn leggist á líkamann í formi fitu að öllu leyti er algert hreyfingarleysi. „Þú þarft líka að passa að hreyfa hvorki legg né lið yfir daginn til að eyða ekki neinum hitaeiningum. Öll þessi páskaegg þurfa að koma til viðbótar við þínar vanalegu 3-4 máltíðir yfir daginn.“
Nítján páskaegg númer 1 þarf til að bæta við einu kílói af fitu, en páskaegg númer 1 eru 400 hitaeiningar. „Páskaegg númer sjö eru 3000 hitaeiningar. Ef þú borðar rúmlega tvö slík þá neglirðu á þig kílói.“
Ragga nagli horfir hins vegar heildrænt á andleg áhrif eggjaátsins.
„Ef þú hatar gleðina og langar alls ekki að skapa minningar um páskana með börnum og fjölskyldu þá skaltu forðast páskaegg eins og loga vítis. Ef þig langar að vera slavískt 100% í heilsunni alla daga allt árið um kring í fullkomnu ójafnvægi þá skaltu bara borða kjúlla og salat yfir páskana. Ef þú lamast vinstra megin af kvíða yfir að þú eyðileggir ALLT með að gúffa smá súkkulaði yfir páskana þá ætti þessi pistill að slengja tusku veruleikans í andlitið. Að njóta af og til og fagna páskum með smá súkkó er partur af prógrammet Fru Stella til að eiga í langvarandi hjónabandi við heilsubröltið.“
Komment