
Alls voru 69 mál bókuð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun en þrír gista fangageymslu hennar eftir nóttina. Hér koma nokkur dæmi um þau verkefni sem lögreglan annaðist.
Lögreglan sem annast verkefni í Vesturbæ Reykjavíkur, miðborginni, Hlíðunum, Laugardal, Háaleiti og á Seltjarnarnesi, stöðvaði ökumann sem hafði vanrækt merkjagjöf og stundað svigakstur á tveimur eða fleirum akreinum. Málið var leyst með sekt á vettvangi.
Tilkynning barst um fjóra búðarþjófa sem réðust á starfsmann matvöruverslunar sem reyndi að stoppa þá. Ódámarnir voru horfnir af vettvangi þegar lögregluna bar að.
Þá komu erlendir aðilar á lögreglustöðina við Hlemm og tilkynntu vasaþjófnað í miðbæ Reykjavíkur.
Tveggja bíla árekstur varð þar sem fimm aðilar voru í bílunum. Lögreglan fór á vettvang en eitthvað eignartjón varð á bifreiðunum og aðilar lítillega slasaðir.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði, í Garðabæ og á Álftanesi, stöðvaði ökumann fyrir að vera með filmur í fremri hliðarrúðum. Var bifreiðin boðuð í skoðun og ökumaðurinn sektaður.
Sömu lögreglu barst tilkynning um bílveltu. Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni en hann var handtekinn, grunaður um ölvunarakstur. Farið var með hann á bráðamóttökuna til skoðunar en eftir það var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Tilkynning barst lögreglunni sem starfar í Kópavoginum og í Breiðholtinu, um húsbrot og líkamsárás í heimahúsi. Þegar lögreglu bar að garði til að rannsaka málið, var árásaraðilinn farinn af vettvangi.
Þá barst sömu lögreglu tilkynning um Gúmmí-Tarsan sem var að spóla í hringi á bifreiðaplani fyrir utan verslun. Var bifreiðin farin þegar lögreglan mætti á vettvang.
Sama lögreglan handtók aðila eftir að tilkynning barst um líkamsárás í heimahúsi. Var hann vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Komment