
Friðrik Ólafsson, skákmeistari og fyrrum skrifstofustjóri Alþingis, lést á líknardeild Landspítalans 4. apríl, 90 ára að aldri. Mbl.is segir frá andlátinu.
Friðrik fæddist 26. janúar 1935 í Reykjavík og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Ólafur Friðriksson skrifstofumaður og Sigríður Ágústa Dorothea Símansdóttir húsmóðir.
Árið 1955 lauk Friðrik stúdentsprófi frá MR og lögfræðiprófi frá HÍ 1968. Var hann fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 1968-1974, forseti Alþjóðaskáksambandsins 1978-1982, ritstjóri Lagasafns Íslands 1982-1983 og skrifstofustjóri Alþingis frá 1984 til 2005.
Friðrik er goðsögn í skákheiminum og átti glæstan skákferil en hann varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst árið 1952. Þá varð hann Norðurlandameistari 1953 og 1971, alþjóðlegur skákmeistari 1956 og varð fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák árið 1958. Friðrik varð sigurvegari á skákmótinu í Hastings 1955 og 1956, í Beverwijk í Hollandi 1959, í Marianske Kasne í Tékkóslóvakíu 1961, á alþjóðlegum skákmótum í Reykjavík 1966, 1972 og 1976 og á Wijk an Zee í Hollandi 1975.
Í andlátsfrétt mbl.is kemur fram að Friðrik hafi veitt forstöðu Skákskóla Friðriks Ólafssonar 1982 til 1984 og sat í nefnd menntamálaráðuneytisins 1989, sem vann að undirbúningi frumvarps til laga um Skákskóla Íslands og stórmeistaralaun.
Árið 1972 var Friðrik sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu og stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1980. Þá var hann útnefndur heiðursborgari Ryekjavíkur árið 2015 og geður aðalheiðursfélagi alþjóðaskáksambandsins.
Þrjár bækur um skák komu út eftir Friðrik en það voru bækurnar Lærið að tefla, sem hann gerði með Ingvari Ásmundssyni, 1958, Heimsmeistaraeinvígið í skák með Freysteini Jóhannssyni 1972 og Við skákborðið í aldarfjórðung árið 1976.
Eiginkona Friðriks er Auður Júlíusdóttir en dætur þeirra eru Bergljót Friðriksdóttir og Áslaug Friðriksdóttir. Barnabörnin eru fimm talsins og langafabörnin fimm.
Komment