
Guðmundur Einarsson, fyrrverandi forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, er fallinn frá en mbl.is greindi frá andláti hans.
Guðmundur fæddist árið 1943 í Borgarfirði. Eftir grunnskólagöngu hélt hann í MR þar sem hann útskrifaðist árið 1962. Hann fór síðar í nám í Háskóla Íslands í viðskiptafræði og útskrifaðist úr því námi árið 1968.
Guðmundur kom víða við á starfsævinni en hann starfaði meðal annars hjá Flugfélagi Íslands, Framkvæmdastofnun, fjármálaráðuneytinu og var forstjóri Skipaútgerðar ríkisins. Hann er þó þekktastur fyrir að hafa verið forstjóri Heilsugæslu Reykjavíkur frá 1994, og síðar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eftir sameiningu, til 2008.
Þá var hann bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi frá 1978 til ársins 1990 og var mjög virkur í félagslífi bæjarins. Hann var í Rótarýklúbbi Seltjarnarness, þar sem hann var forseti um tíma, og átti sæti í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju frá 1990 og var formaður 1994-2022.
Guðmundur lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn.
Komment