
Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 510 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2024 til 1. ágúst 2025 og íbúum Hafnarfjarðar fjölgaði á sama tímabili um 587 íbúa en greint er frá þessu í nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands.
Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 145 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 176 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 396 íbúa.
Fjölgar hlutfallslega mest í Grímsnes- og Grafningshreppi
Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum í Grímsnes- og Grafningshrepp fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2024 um 9,7% en íbúum þar fjölgaði um 59 íbúa. Þá segir Þjóðaskrá að hlutfallslega hafi íbúum fjölgað næst mest í Sveitarfélaginu Vogar eða um 8%. Af 62 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 13 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 49 sveitarfélögum.
Þá greinir Þjóðskrá einnig frá því að íbúum Grindavíkurbæjar hafi fækkað um 538 á tímabilinu eða um 38,2%.
Komment