
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, tekur þátt í sameiginlegri áskorun evrópskra borgarstjóra til tyrkneskra yfirvalda, vegna skyndilegrar handtöku borgarstjóra Istanbúl, Ekrem İmamoğlu, þann 19. mars síðastliðinn, en greint er frá þessu i tilkynningu frá borginni.
„Það skiptir máli að Reykjavík taki alltaf afstöðu með mannréttindum og lýðræði. Hér er lýðræðinu stórlega ógnað, og því er þessi handtaka óásættanleg,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur um málið.
Borgarstjórarnir skora á tyrknesk yfirvöld að leysa borgarstjóra Istanbúl og stjórnarandstæðinga úr haldi þegar í stað, hætta pólitískum ákærum, þrýstingi og árásum á sjálfstæði sveitarfélaga og tryggja virðingu fyrir lýðræðislegum ferlum og mannréttindum í Tyrklandi.
„Við [borgarstjórar í Evrópu] fordæmum handahófskennda fangelsun borgarstjóra Istanbúl og lýsum yfir djúpum áhyggjum af stöðunni, sem og endurteknum árásum á grundvallarréttindi og sjálfstæði sveitarfélaga í Tyrklandi. Þessar handtökur, ásamt stöðugum þrýstingi á lýðræðislega kjörna fulltrúa, marka nýtt tímabil brota á lýðræðislegum ferlum í landinu.
Ekrem Imamoğlu var kjörinn í frjálsum kosningum og er tákn um von fyrir framtíð sem byggir á fjölhyggju, réttlæti og virðingu fyrir grundvallarfrelsi.
Ennfremur hvetjum við stofnanir Evrópu til að grípa tafarlaust til aðgerða til að tryggja frelsi kollega okkar og gera allt sem nauðsynlegt er til að vernda réttarríkið í Tyrklandi.
Í þessu máli stöndum við í fullri samstöðu með íbúum Istanbúl og öllum Tyrkjum sem hafa áhyggjur af örlögum borgarstjórans.“
Komment