
Í einlægu viðtali við Heimildina greinir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, frá því að henni hafi verið hótað.
Segir hún að ofbeldi sé markvisst notað til að halda konum niðri og hún þekki það sjálf. „Ég hef fundið það á eigin skinni. Það var fyrir nokkrum árum þegar mér var hótað,“ sagði borgarstjórinn. „Þetta voru hótanir sem beindust að mér af því að ég er kona. Kona í valdastöðu.“
Að hennar sögn leitaði hún aðstoðar lögreglu en kærði málið ekki. „Ég vil ekki fara ofan í kjölinn á málinu en þetta gerðist í kjölfar Metoo-umræðunnar. Það tók svolítinn tíma að vinna úr þessu en ég vil í sjálfu sér ekki tala mikið meira um það en ég skil mjög vel konur sem taka þetta nærri sér því þetta mjög óþægileg staða.“
Heiða hafði þá farið fyrir hópi stjórnmálakvenna sem sendi frá sér yfirlýsingu þar sem var gerð krafa á að íslenskir stjórnmálaflokkar tækju betur á kynferðisofbeldi í samfélaginu.
Heiða segir einnig að hún hafi fengið góða aðstoð við að vinna úr áfallinu. Það sé mikilvægt að konur sitji ekki einar uppi með það og muna að þær beri ekki ábyrgðina heldur aðeins sá sem beitir ofbeldi.
Komment