
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens skellti sér norður í góða veðrið til að veiða ef marka má orð hans á samfélagsmiðlum. „Eitt er að veiða,en hitinn hèr fyrir Norðan er ekki það sem maður er að biðja um,“ skrifaði söngskáldið mikla og birti mynd af sér berum að ofan. Hestamaðurinn Fjölnir Þorgeirsson skrifaði „Djöfull ertu flottur,“ við myndina í kjölfarið.
Bubbi skellti einnig í eina ferskeytlu í athugasemdakerfinu við myndina
Bíð ég eftir vætu vinur
Vona hún Komi hér og nú
Í hita er ég latur linur
Láttu rigna elsku þú
Það verður ekki betur séð en að Bubbi sé í þrusugóðu formi en hann varð 69 ára gamall í sumar. Í sumar seldi hann einmitt allt höfundarverk sitt til Öldu Music en fyrirtækið getur þá nýtt sér nafn Bubba og útlit hans frá 1980 og þar til eftir að Bubbi fellur frá.
„Bubbi Morthens á engan sinn líka. Ég hef verið svo heppinn að fá að starfa náið með honum síðustu ár og fengið að kynnast sköpunarferlinu sem býr að baki þessu stórmerkilega höfundarverki sem spannar hátt í fimm áratugi. Það er vel við hæfi að Bubbi ryðji brautina enn á ný með fyrsta samningnum af þessari gerð hér á landi,“ er haft eftir Sölva Blöndal, framkvæmdastjóra Öldu Music, um Bubba.
Komment