
Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland-Palestína, gagnrýnir valið á friðarverðlaunahafa Nóbels þetta árið.
Maria Corina Machado, frá Venesúela, hlaut friðarverðlaun Nóbels í ár en Hjálmtýr gagnrýnir það val harðlega á Facebook-síðu sinni. Bendir hann á að Machado hafi lýst yfir stuðningi við þjóðarmorð Ísraela á Gaza, kallað eftir hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í Venesúela og kallað eftir viðskiptaþvingunum gegn landi sínu, sem hafi kostað tugþúsunda manna lífið, svo eitthvað sé nefnt.
Vitnar hann að lokum í orð norska þingmannsins Björnar Moxnes: „Friðarverðlaunahafinn [Maria Corina Machado] hefur persónulega undirritað samstarfsskjal við Likud-flokkinn í Ísrael, sem ber aðalábyrgðina á þjóðarmorðinu í Gaza. Við teljum því að þessi friðarverðlaun séu ekki í samræmi við tilgang Nóbels.“
Í annarri færslu sem Hjálmtýr skrifaði þegar nýbúið var að tilkynna verðlaunahafann skrifaði hann: „Síonisti sem styður þjóðarmorð á Gaza fékk friðarverðlaun Nóbels. Kunniði annan?“
Hér má lesa færslu Hjálmtýs í heild sinni
„FRIÐARVERÐLAUNAHAFINN
María Corina Machado hlýtur friðarverðlaun Nóbels eftir að hún:
– Kallaði eftir hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í Venesúela
– Kallaði eftir viðskiptaþvingunum gegn Venesúela, sem hefur kostað tugþúsundir manna lífið
– Lýsti yfir stuðningi við þjóðarmorð síonista á Gaza
– Bað fjöldamorðingjann Netanyahu um stuðning við hernaðaríhlutun í Venesúela
– Fagnaði drápum Bandaríkjanna á Venesúelamönnum án dóms og laga.
Norski þingmaðurinn Björnar Moxnes, segir: „Friðarverðlaunahafinn [Maria Corina Machado] hefur persónulega undirritað samstarfsskjal við Likud-flokkinn í Ísrael, sem ber aðalábyrgðina á þjóðarmorðinu í Gaza. Við teljum því að þessi friðarverðlaun séu ekki í samræmi við tilgang Nóbels“.“
Komment