
Magnús Þór Jónsson eða Megas eins og hann er kallaður, er áttræður í dag. Af því tilefni skrifaði söngvaskáldið og jafnaldri Megasar, Hörður Torfason, færslu honum til heiðurs á Facebook.
„Þá er hann Megas orðinn áttræður. Til hamingju minn kæri. Ég næ þér í haust. Ég veit að þú ert einhversstaðar rúllandi um í hjólastól og ég held áfram að hugsa fallega til þín eins og alltaf þó ég sé langt í burtu þessa daga.“
Þannig hefst hin fallega færsla Harðar en hann segir að leiðir þeirra Megasar hafi legið saman annað slagið frá því að þeir fermdust í Hallgrímskirkju.
„Leiðir okkar hafa legið sundur og saman síðan við fermdumst í Hallgrímskirkju. Fjallabaksleiðir, hraðbrautir, einstigi, troðningar, grýttar götur sem sléttar. Við höfum hoppað eftir þeim saman eða í sundur en alltaf með djúpri virðingu fyrir hvor öðrum og verið samstíga í þeim leik að vera til og hafa gaman að því að skapa.“
Hörður gerist ansi ljóðrænn í lokaorðum sínum:
„Við höfum gengið ítrekað fram af björgum vandlætingamanna en þeir áttuðu sig aldrei á því að menn sem kunna að svífa þurfa ekki fallhlífar. Þú ert bestur. Knús.“
Komment