
Á morgun, þriðjudaginn 16. september, fjallar bæjarstjórn Akureyrar um lausnarbeiðni Huldu Elmu Eysteinsdóttur, bæjarfulltrúa L-listans. Hún lætur af störfum þar sem hún og fjölskylda hennar eru að flytja frá Akureyri. Þetta kemur fram í frétt Akureyri.net.
Í hennar stað tekur sæti Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir, sem var í 5. sæti á framboðslista L-listans í sveitarstjórnarkosningunum 2022. Flokkurinn hlaut þá mest fylgi allra framboða, 18,7%, og fékk þrjá fulltrúa kjörna. Elma var í 2. sæti listans en varð oddviti flokksins snemma á kjörtímabilinu þegar Gunnar Líndal Sigurðsson, fyrsti maður listans, sagði af sér.
Elma gegndi einnig embætti varaformanns bæjarráðs og var formaður velferðarráðs. Halla Björk Reynisdóttir tekur við sæti hennar í bæjarráði og Andri Teitsson kemur inn í velferðarráð, þar sem hann verður formaður í hennar stað.
L-listinn myndar meirihluta í bæjarstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem á tvo fulltrúa, og Miðflokknum, sem á einn.
Komment