
Evrópusambandið hvetur nú alla íbúa bandalagsins til að eiga nægar birgðir af mat og öðrum nauðsynjum til að duga í að minnsta kosti 72 klukkustundir, komi til neyðarástands. Þetta kemur fram í nýjum leiðbeiningum sem framkvæmdastjórn ESB birti á miðvikudag.
Í leiðbeiningunum er lögð áhersla á að Evrópa þurfi að innleiða viðhorfsbreytingu og þróa með sér menningu „viðbúnaðar“ og „seiglu“. Þar er varað við aukinni óvissu og nýjum hættum í álfunni, meðal annars vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, vaxandi spennu á alþjóðavettvangi, skemmdarverka á mikilvægum innviðum og rafræns hernaðar.
Fram kemur að þessi nýja stefna framkvæmdastjórnarinnar sé viðvörun til aðildarríkjanna um að öryggi álfunnar sé ógnað. Viðvarandi ógn frá Rússlandi og breytt viðhorf Bandaríkjanna, einkum í forsetatíð Donalds Trump, hafa ýtt undir áherslu á hernaðarlegan viðbúnað innan álfunnar.
Í stefnu framkvæmdastjórnarinnar, sem ber heitið European Preparedness Union Strategy, segir að borgarar ættu að gera raunhæfar ráðstafanir og tryggja að þeir séu undirbúnir fyrir neyðarástand – þar á meðal með því að eiga mat og vatn í að minnsta kosti þrjá daga. „Í öfgakenndum aðstæðum er upphafstímabilið það mikilvæga,“ segir í skýrslunni.
Auk þess er lagt til að kennsla í viðbúnaði verði hluti af námskrám í skólum, þar sem börn og ungmenni læri meðal annars að greina falsfréttir og verjast upplýsingahernaði.
„Nýjar aðstæður kalla á nýtt stig undirbúnings í Evrópu,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB. „Borgarar okkar, aðildarríkin og fyrirtækin þurfa réttu verkfærin til að geta brugðist hratt við þegar á reynir.“
Skýrslan kemur í kjölfar þess að einstök ríki, þar á meðal Þýskaland og Norðurlöndin, hafa undanfarið endurskoðað eigin neyðar- og varnaráætlanir. Í júní í fyrra kynnti Þýskaland nýja varnarskipulagsskrá, sem á að styrkja landið gegn yfirvofandi ógn af hálfu Rússa.
Komment