
Illugi Jökulsson bendir fylgjendum sínum á Facebook á þá staðreynd að hinn umdeildi Ben Shapiro hafi verið fenginn til að kveikja á kyndli á þjóðhátíðardegi Ísraels. Lætur hann þung orð falla um Shapiro og eru flestir honum sammála í athugasemdum. Hannes Hólmsteinn Gissurarson uppgjafaprófessor er þó ekki einn af þeim.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson skrifaði Facebook-færslu í gær þar sem hann minnist á þá staðreynd að Ben Shapiro hafi verið valinn til að heiðra Ísrael með því að kveikja á kyndli á þjóðhátíðardegi landsins.. Segir Illugi Shapiro vera „ofsafenginn illyrmismaður“ sem bæði fagni drápum á Palestínumönnum og „froðufelli yfir hvers konar vóki, trans fólk, hinsegin fólki“ og fleirum.
Hér má lesa færsluna:
„Bandaríski öfgamaðurinn Ben Shapiro hefur verið valinn til að kveikja á kyndli á þjóðhátíðardegi Ísraels, en það er táknrænn heiður. Shapiro er ofsafenginn illyrmismaður sem fagnar ekki aðeins drápum á Palestínumönnum heldur gefur sér líka tíma til að froðufella í podcasti sínu gegn hvers konar vóki, trans fólki, hinsegin fólki og "góða fólkinu" almennt. Að hann, sem er slíkur öfgamaður að meira að segja margir Gyðingar hafa ógeð á honum, sé fenginn til þess arna sýnir hve Ísraelsríki er komið víðsfjarri siðuðu samfélagi. Segðu mér hverjir eru vinir þínir og ég skal segja þér hver þú ert.“
Nokkrir tjáðu sig um Shapiro í athugasemdum við færslu Illuga og voru lang flestir sammála Illuga en Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók upp hanskann fyrir hinum afar umdeilda Shapiro. „Ég hef horft á marga þætti með honum, og hann er ágætur, eiturskarpur og snjall. Hann stóð sig til dæmis mjög vel í kappræðum við málsvara hryðjuverkamannanna í málfundafélagi Oxford-háskóla.“
Þó nokkrir svara Hannesi en einn þeirra bendir á að Shapiro hafi greinilega ekki gengið vel í þessum kappræðum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu í lok þeirra að Ísrael væri aðskilnaðarríki sem bæri ábyrgð á þjóðarmorði.
„Besta ræða sem ég hef séð flutta í málfundafélagi Oxford-háskóla var ræða Susan Abulhawa í kappræðum við málsvara morðóðu landránsnýlendunnar. Enda samþykkti fundurinn afdráttarlaust að ísrael væri aðskilnaðarríki ábyrgt fyrir þjóðarmorði.
Komment