
Inga Sæland vill skerða réttindi atvinnulausra en slíkt kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Eins og staðan er í dag er hægt að vera á atvinnuleysisbótum í 30 mánuði og er það met á Norðurlöndum að sögn ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt tilkynningunni er fyrirhugað að stytta hámarkslengd þess tímabils sem fólk getur fengið greiddar atvinnuleysisbætur og er nú unnið að þeirri útfærslu. Ekki er tekið fram hversu langt tímabilið muni vera í framtíðinni.
Samhliða styttingu bótatímabilsins verður aukinn kraftur lagður í að aðstoða þá sem hafa verið lengi án atvinnu við að komast út á vinnumarkaðinn.
„Markmiðið er að taka betur utan um fólk og virkja þannig mannauðinn okkar. Vanvirkni er eitthvað það allra versta fyrir andlega líðan fólks. Það er óverjandi að festa fólk í slíkri vanvirknisgildru,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Það er mannúð sem felst í því að veita fólki góðan stuðning og markvissa hjálp til að koma þeim aftur í virkni í samfélaginu. Einhver hópur fólks á þó frekar heima í öðrum úrræðum en í atvinnuleysistryggingakerfinu. Þetta snýst um að fólk fái þá þjónustu sem hentar hverjum og einum hverju sinni.“
Komment