
Karen Kjartansdóttir, almannatengill og fyrrum fjölmiðlakona, skýtur föstum skotum á Miðflokkinn sem um helgina hefur haldið landsþing og lagt mikla áherslu á mál hælisleitenda hér á landi.
Mannlíf sagði frá því í gær að Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson, endurkjörinn formann Miðflokksins en hann talaði um að nú sé óheft flæði hælisleitenda á Íslandi, sem Björn Leví sagði ekki vera sannleikanum samkvæmt. Og nú bendir Karen Kjartansdóttir á tölulegar staðreyndir.
Í færslu sinni, sem vakið hefur talsverða athygli, talar hún um „þreytandi tilfinningaþvaður“ og að „hinn talnablindasti maður“ ætti að sjá að gögnin styðji ekki málflutning Miðflokksins um hælisleitendur.
„Ef stjórnmálaflokkar vilja ræða raunverulegar áskoranir ættu þeir frekar að tala um atvinnustefnu sem kallar á innflutt vinnuafl, ekki nokkra tugi sem flýja átök.
Tilfinningaþvaður sem ekki byggir á tölum er orðið þreytandi — sérstaklega þegar gögnin liggja alveg fyrir.
Fjölgun útlendinga er ekki þessum allra minnsta hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd að kenna og fær ekki nærri allur vernd.
Það sér hinn talnablindasti maður ef hann nennir að skoða gögn sem sumir stjórnmálamenn virðast treysta á að kjósendur geri ekki.
Ef þið hafið áhyggjur af íslensku bætið þá í stuðning við útgáfu barnaefnis á íslensku, styðjið við íslenska menningu sem skilar sér í auknum umsvifum og betra samfélagi.
Hættið þessu væli.“

Komment