
Sprunguhreyfingar hafa verið innan Grindavíkur í dag samhliða eldgosinu sem teygir sig eftir sprungu allt að hálfum kílómetra frá bænum. Á meðfylgjandi myndum frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands má sjá hvernig jörðin er sprungin. Þá sést hvernig sprunga teygir sig í áttina að því smágosi sem vall upp úr sprungu inni í bænum í janúar 2023.
Vegna sprunguhreyfinga rofnaði heitavatnslögn í norðurhluta Grindavíkur. Heildarlengd sprungunnar náði 1,2 kílómetrum fyrr í dag. Kvika er enn á hreyfingu um kvikuganginn, sem nú nær lengra en nokkru sinni áður. Hann er nú yfir 11 kílómetra langur.
„Áframhaldandi skjálftavirkni mælist á kvikuganginum öllum, en mesta skjálftavirknin er á norðaustur enda gangsins. Kvikugangurinn nær núna rúmum 3 km lengra í norðaustur heldur en sést í fyrri gosum. Aflögunargögn sýna einnig áframhaldandi færslur til norðausturs. Þetta bendir til þess að kvikan sé enn á hreyfingu um kvikuganginn,“ segir Veðurstofan. Skjálftavirknin mælist mest við norðurenda kvikugangsins.



Komment