
Í dagbók lögreglu frá því í dag er greint frá umferðarslysi þar sem aðili datt af rafmagnshlaupahjóli. Sá reyndist með öllu allsgáður sem er vanalega ekki raunin þegar rafmagnshlaupahjólaslys eru tilkynnt að sögn lögreglu. Sá var verkjaður í ökkla eftir fallið og leitaði sér aðstoðar á slysadeild til aðhlynningar.
Þá var tilkynnt um líkamsárás á Ingólfstorgi þar sem einn aðili réðst á annan með höggi í andlit. Árásarþoli íhugar hvort hann ætli að kæra árásina.
Lambhúshettuklæddur maður flúði á Hopp hjóli eftir að hafa brotið stóra rúðu á Hafnartorgi.
Ökumaður vörubifreiðar var stöðvaður þar sem hann flutti lausan jarðveg eða möl langt upp fyrir skjólborð á hliðum vörubifreiðarinnar. Mölin féll af bifreiðinni á veginn við akstur. Ökumaðurinn taldi að þetta væri leyfilegt þó lögregla tilkynnti honum að svo væri ekki. Ökumaðurinn á yfir höfði sér sekt.
Tilkynnt var um konu í annarlegu ástandi að sparka í tunnur og öskra undir beru lofti. Konan fannst ekki.
Ökumaður var stöðvaður fyrir að aka of nærri lögreglubifreið. Hann var sektaður fyrir að hafa of stutt bil á milli ökutækja.
Komment