
Lögreglan auglýsinr eftir myndefni frá vegfarendum af líkamsárásinni á Ingólfstorgi á föstudagskvöldið 21. mars.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu þar sem hún óskar eftir aðstoð vegfarenda sem mögulega náðu myndefni af hópslagsmálunum á Ingólfstorgi en tveir voru fluttir á slysadeild og 13 handteknir. Öllum var þeim sleppt í dag.
Tilkynningin um líkamsárásina barst lögreglu rétt fyrir 23 á föstudagskvöld en þá var talsvert af fólki á ferð. Því telur lögreglan líklegt að einhverjir hafi myndað atburðarásina, eða hluta hennar, með símum sínum. Er fólk beðið um að senda upplýsingar um málið á [email protected] og gefa þar upp nafn sitt og símanúmer.
Eins og áður segir voru tveir fluttir á slysadeild eftir árásina, en í henni var beitt bæði hníf og kylfu. Mennirnir hafa báðir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi, en mikil mildi þykir að ekki fór verr. Rannsókn málsins, sem er mjög umfangsmikið, miðar ágætlega, samkvæmt lögreglunni.
Komment