
Stjórn Mannréttindastofnunar Íslands hefur, að undangengnu mati hæfnisnefndar, skipað Margréti Maríu Sigurðardóttur í embætti framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar Íslands en greint er frá þessu á vef Alþingis. Hún er skipuð til næstu fimm ára.
„Margrét María lauk kandidatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri árið 2010 og MBA-gráðu frá University of the Highland and Islands í Skotlandi með áherslu á mannréttindi árið 2024. Hún öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996,“ segir í tilkynningunni.
„Margrét María á að baki langan starfsferil sem stjórnandi hjá hinu opinbera. Hún hefur starfað sem lögreglustjóri á Austurlandi frá árinu 2020. Á árunum 2017–2020 gegndi hún stöðu forstjóra Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Jafnframt gegndi hún formennsku í fagráði Dómstólasýslunnar gegn einelti og áreitni á árunum 2018–2020. Á árunum 2007–2017 gegndi Margrét María embætti umboðsmanns barna. Á árunum 2002–2007 starfaði Margrét María á Jafnréttisstofu, fyrst sem lögfræðingur og um fjögurra ára skeið sem framkvæmdastjóri. Áður starfaði Margrét María m.a. sem sjálfstætt starfandi héraðsdómslögmaður og sem fulltrúi sýslumanns. Margrét María hefur jafnframt verið prófdómari og leiðbeint háskólanemendum í meistararitgerðum í mannréttindum við lagadeild Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Hún sat í stjórn Píeta samtakanna frá 2017 til 2020.“
Komment