
„Ég kom jafnvel heim, þurrkaði blóð af skónum og fór að baka pitsu með börnunum,“ segir Kristján Halldór Jensson, áður kallaður Elvis, í viðtali við Heimildina hvernig hann þróaðist úr reiðum dreng yfir í einn alræmdasta glæpamann Íslands.
„Ég náði að aðskilja þetta, eitt var í gangi á daginn og annað á kvöldin. Á daginn var ég fastur í minni geðveiki og í rofi frá raunveruleikanum. Ég held að ég hafi í raun lifað meira og minna í geðrofi allt mitt líf,“ segir hann í viðtalinu.
Sautján ára byrjaði hann á vopnuðum ránum. Hann setti á sig hettu og hljóp inn í kjörbúðir og bensínstöðvar og rændi staðina.
„Ég var skíthræddur lítill strákur og það var óþægileg tilfinning. Ég var uppfullur af höfnunartilfinningu, reiður og bitur. En ég leyfði þessari reiði og heift ekki að koma fram. Tilfinningar voru ekki uppi á borðum.“
Síðar varð hann handrukkari. Hann skildi eftir sig sviðna slóð. „Ég hef beinbrotið fólk. Ég hef skotið á fólk. Ég hef ógnað fólki með byssum og lamið fólk með byssuskeftum og öðru,“ segir hann og bætir við.
„Samfélagið var með þennan stimpil á mér og ég var búinn að samþykkja hann, eigna mér hann og trúa því. Þetta var orðið mitt vörumerki. Ég var bara glæpamaður,“ segir hann.
Kristján komst að því í sjálfsvinnu að hann hefur óbeit á ofbeldi. Hann vinnur núna sjálfboðaliðastörf með Bataakademíunni og vinnur tvo daga í viku hjá listamanninum Tolla. „Það er alltaf hægt að snúa við blaðinu.“
Hann var tilnefndur til lýðheilsuverðlauna forseta Íslands í hittiðfyrra, ásamt stuðnings- og fræðslusamtökunum Traustum kjarna, fyrir vel unnin störf í þágu framfara í forvörnum og geðheilbrigðismálum.
Komment