
Kona setti upp falda myndavél við skrifborð sitt eftir að hún grunaði að drykkir hennar hefðu verið „mengaðir með efnasambandi.“ Myndefnið sýnir að sögn samstarfsmann hennar setja dropa af ofurlími í gosið hennar.
Karlmaður í Wisconsin hefur verið ákærður fyrir að spilla drykk samstarfskonu sinnar, eftir að hafa verið gripinn glóðvolgur á myndbandi sem hún tók upp í laumi.
Samkvæmt dómsskjölum í Milwaukee-sýslu hefur Joseph R. Ross, 34 ára, verið ákærður eftir að hann setti ofurlím (e. super glue) í gosdrykk samstarfskonu sinnar á Wisconsin State Fair-svæðinu.
Í skjölum um líklega sakargift, sem Law&Crime og WITI (staðbundin Fox-stöð) hafa undir höndum, kemur fram að fimmtudaginn 20. mars hafi lögreglumenn á Wisconsin State Fair Park-svæðinu verið stöðvaðir af konu, sem í skýrslunni er nefnd „JH“, á eftirlitsgöngu sinni. Hún bað þá um að ræða við sig í trúnaði.
„Í samtalinu sagði JH lögreglumönnunum að fyrir um það bil tveimur til þremur vikum hafi hún grunað að drykkir hennar á skrifborðinu hefðu verið mengaðir með efni,“ sagði í skýrslunni. „Hún varð vör við þetta vegna sterkrar efna-lyktar og -bragðs. JH sagðist hafa veikst eftir að hafa drukkið drykkina. Auk þess hafi hún ekki veitt neinum leyfi til að setja neitt í drykk sinn.“
JH grunaði að drykkir hennar væru mengaðir og setti því upp falda myndavél sama morgun til að reyna að komast að sannleikanum, og það tókst.
„Um klukkan 09:52 náði myndavél JH myndum af samstarfsmanni hennar, sem hún deilir skrifstofu með, Joseph R. Ross, þar sem hann setti efni í gosdrykk hennar,“ sagði í skýrslunni. „JH deildi myndefninu með lögreglumönnum.“
Samkvæmt WITI sýndi myndbandið Ross með lítið flösku- eða túbuformað ílát með hvítum stút, sem virtist vera brún-appelsínugult að lit. Ross sást svo að sögn „kreista og handfjatla litla ílátið með vinstri þumli og vísifingri á meðan hann hélt því stöðugt yfir gosdósinni.“
Í yfirheyrslu viðurkenndi Ross að hann hefði „sett fæðubótarefni“ í drykk JH. Við rannsókn fundu yfirvöld par af latexhönskum sem höfðu verið krumpaðir saman í kúlu.
„Annar hanskinn innihélt blátt plastlok. Hinn hanskinn innihélt ílát af ofurlími,“ sagði í skýrslunni. Um var að ræða „Gorilla Brand Super Glue.“
Ross var handtekinn og mætti fyrir dómara á miðvikudag. Hann er nú í varðhaldi í Milwaukee-sýslu með tryggingarfé upp á 10.000 dali eða ríflega 1,3 milljóna króna. Ef hann verður fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að þrjú og hálft ár í fangelsi og 10.000 dala sekt. Hann á að mæta fyrir dóm þann 3. apríl fyrir frumskýrslutöku.
Eftir handtöku Ross sendi Wisconsin State Park frá sér yfirlýsingu til WITI:
„Þeir tveir einstaklingar sem komu við sögu störfuðu hjá birgja en ekki sem starfsmenn Wisconsin State Fair Park. Því getum við ekki tjáð okkur um stöðu þeirra í starfi. Þar sem atvikið átti sér stað á svæðinu, brást lögreglan okkar við, framkvæmdi ítarlega rannsókn og sendi skýrslu til héraðssaksóknara.“
„Þrátt fyrir að atvikið hafi hvorki átt sér stað á milli starfsmanna okkar né haft áhrif á gesti viljum við ítreka að öryggi er í forgangi í State Fair Park, og við lítum þessi mál alvarlegum augum,“ sagði í yfirlýsingunni að lokum.
Komment