Tæplega 20 mótmælendur komu saman í hádeginu til að mótmæla Gil S. Epstein sem ætlaði að halda fyrirlestur í Þjóðminjasafninu.
Fyrirlesturinn var öllum opinn og átti að fjalla um þróun gervigreindar. Epstein er prófessor í hagfræði við Bar-Ilan háskólann í Ísrael og gegnir þar stöðu í opinberri stefnumótun. Fyrirlesturinn var á vegum Pension Research Institute Iceland (PRICE) en samkvæmt heimasíðu þess eru Gylfi Zoega og Þorsteinn Sigurður Sveinsson stjórnendur PRICE.
Í færslu Ingólfs Gíslasonar, aðjúnkts við Háskóla Íslands, segir hann að það sé erfitt að líta að það öðruvísi en að þetta boð PRICE til Epstein sé stuðningsyfirlýsing við þjóðarmorð.
„Það má lesa víða um það hvernig Bar-Ilan háskóli styður hernað ríkisins með fjölbreyttum hætti og yfirlýstan stuðning skólans við hernaðinn, landránið og ýmsar leiðir til að styðja við hvorutveggja. Það finnast engin merki um að prófessorinn hafi á nokkurn hátt beitt sér gegn hernáminu eða þjóðarmorðinu,“ skrifar Ingólfur svo í annarri færslu.
Mótmælin urðu til þess að fyrirlestrinum var aflýst og tilkynnti Gylfi Zoega gestum fréttirnar.





Komment