
Rafíþróttasamband Íslands mun ekki greina frá hvort og þá hvernig sambandið hafi refsað Eyþóri Atla Geirdal fyrir hegðun sína á tölvuleikjamótinu Skjálfta sem fór fram í lok september í Kópavogi.
Vísir greindi upphaflega frá því að hinn þrítugi Eyþór hafi ráðist á 17 ára mótherja sinn eftir leik og náðist árásin á upptöku. Þá kallaði Eyþór mótherja sinn „ógeðslegt innflytjanda hyski,“ í spjalli í leiknum.

Mannlíf hafði samband við Rafíþróttasamband Íslands til að spyrja hvernig yrði tekið á málinu.
„Rafíþróttasamband Íslands tekur tilvik sem þessi alvarlega. Við höfum lokið rannsókn á atvikinu sem átti sér stað á Skjálfta-mótinu og unnið í samræmi við reglur sambandsins og barnaverndarlög þar sem við á. Vegna persónuverndar og réttinda þeirra sem málið varðar getum við ekki farið í ítarlegar upplýsingar um niðurstöður eða ákvörðun um refsingar á einstaklingsgrunni,“ sagði Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasambands Íslands, um málið en samkvæmt heimildum Mannlífs hefur Eyþór verið bannaður frá viðburðum RÍSÍ í tvö ár.
Þess má geta að önnur íslensk íþróttasambönd gefa upp upplýsingar um bönn keppenda og í mörgum tilfellum tilkynna það sérstaklega á heimasíðum sínum.
„Við getum hins vegar staðfest að sambandið hafi gripið til aðgerða. Einnig höfum við yfirfarið verklag og reglur sem snúa að sambærilegum atvikum. RÍSÍ leggur áherslu á að skapa öruggt, faglegt og skemmtilegt umhverfi fyrir alla iðkendur, og við munum halda áfram að vinna markvisst að því,“ sagði Jökull að lokum.
Komment