
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur heldur betur verið duglegur að blanda sér í samfélagsumræðuna að undanförnu og í dag veitir hann Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Sjálfstæðisflokksins, ráðleggingar en eins margir muna var Össur sjálfur formaður Samfylkingarinnar í byrjun 21. aldar.
„Margra tíma umræður um plasttappa og hvuttagelt eftir hundablístru „hrútakofans“ á Mogganum þar sem pólitískur eltihrellir virðist með Kristrúnu Frostadóttur á heilanum. Þetta er það sem liggur eftir Sjálfstæðisflokkinn á þessum vetri,“ skrifar Össur á samfélagsmiðla.
„Það var ekki mikil reisn yfir efnilegum formanni Sjálfstæðisflokksins að láta plata sig út í upphlaup á þingi einsog gegn Kristrúnu í gær. Hún reið ekki feitum hesti frá því. Sigurður Ingi, formaður Framsóknar hafði réttilega vit á því að draga sig úr þeirri aðför. Hann er alvörustjórnmálamaður hvað sem mönnum einsog Guðna Ágústssyni og öðrum kann að finnast um hann.
Formaður, hvað þá nýr einsog Guðrún Hafsteinsdóttir, á ekki að fara í pólitískan skæting við aðra formenn. Hún á að spara sitt púður fyrir stóru málin, og helst ekki tala um annað en erindi og málefni Sjálfstæðisflokksiins. Láta aðra um skæklatogið. Þá gæti fylgið snúið til baka. Ég tala af reynslu í því efni.“
Þá segir hann einnig að það síðasta sem hún eigi að gera sé að láta nýfallna og grútspælda ráðherra og fallista af landsfundi etja sér niður á þetta plan. Allra síst þá sem á bak kalla hana blygðunarlaust „biðformanninn.“
Komment