
Prófessor við Yale-háskóla sem er þekktur fyrir bókina How Fascism Works, hefur ákveðið að yfirgefa bandaríska háskólann og flytja til Kanada. Ástæðuna segir hann vera að hann hafi tekið ákvörðun um að „ala upp börnin [sín] í landi sem er ekki að breytast í fasískt einræði“.
Ein af ástæðum þess að heimspekingurinn Jason Stanley tók ákvörðunina var að Columbia-háskóli í New York ákvað að ganga að kröfum Donalds Trump Bandaríkjaforseta, eftir að hann hafði gefið út forsetatilskipun um að svipta skólann ríkisfjármögnun. Kröfurnar snerust um að þrengja að rétti nemenda til þess að mótmæla, auka öryggisheimildir og innleiða „innri endurskoðun“ ýmissa námsgreina, eins og Miðausturlandafræða. „Columbia var bara viðvörun. Ég varð áhyggjufullur vegna þess að ég sá ekki sterk viðbrögð hjá öðrum háskólum til að standa með Columbia,“ segir Stanley við breska miðilinn Guardian.
Stanley skrifaði grein í Guardian nýverið þar sem hann varaði við því að það gæti leitt yfir fólk mannréttindabrot að veita kennslu um kerfisbundinn rasisma, eins og túlkun Trump-stjórnarinnar væri. Þetta myndi leiða af sér „menntunarlegt einræði“.
Stanley segist síður líta svo á að hann sé að „flýja Bandaríkin“ og fremur að hann sé að ganga til liðs við Kanada, sem sé skotmark Trumps eins og Yale-háskólinn.
„Hluti af þessu er að maður er að fara, vegna þess að það er eins og að yfirgefa Þýskaland árin 1932, 33 eða 34. Það er ákveðinn samhljómur. Amma mín yfirgaf Berlín með pabba mínum 1939. Þannig að þetta er fjölskylduhefð,“ sagði Stanley.
Stanley mun hefja störf hjá Munk School of Global affairs & Public Policy í Toronto. Þar í borginni starfar annar fræðimaður sem yfirgaf Yale fyrir Kanada, sagnfræðingurinn Timothy Snyder, sem er þekktur fyrir bók sína On Tyranny, eða Um alræði. Hann fór ásamt eiginkonu sinni, sagnfræðingnum Marci Shore, sem segist „óttast borgarastríð“. „Ég skynjaði að í þetta sinn, eftir seinna kjör Trumps, yrði allt mun verra en í fyrra skiptið - allt aðhald [e. checks and balances] hefur verið sundurlimað. Ég finn að landið verður í frjálsu falli. Ég er hrædd um að það verði borgarastríð. Og ég vil ekki draga börnin mín inn í það. Ég hef efasemdir um að Yale eða nokkur annar bandarískur háskóli geti verndað nemendur eða starfsfólk.“
Komment