
Ræningjar vopnaðir keðjusögum brutust inn í Louvre-safnið í París í morgun og höfðu á brott með sér skartgripi, að sögn nokkurra heimildarmanna, sem varð til þess að mest heimsótta safni heims var lokað.
Þjófarnir komu á staðinn á milli kl. 9:30 og 9:40 að staðartíma, 07:30 og 07:40 að íslenskum tíma, og stálu skartgripum, að sögn heimildarmanns sem fylgist með, og bætti við að verðmætin væru enn í mati.
Annar heimildarmaður innan lögreglunnar sagði að ræningjarnir hefðu komið á vespu, vopnaðir litlum keðjusögum, og notað vörulyftu til að komast inn í salinn sem þeir ætluðu sér að ræna.
Rachida Dati, menningarmálaráðherra Frakklands, tilkynnti fyrr á sunnudag um innbrot í Louvre-safnið í París.
„Rán var framið í morgun við opnun Louvre-safnsins,“ skrifaði hún á X.
„Engan sakaði. Ég er á staðnum með starfsfólki safnsins og lögreglu,“ bætti hún við.
Louvre-safnið tilkynnti á X að það myndi loka dyrum sínum þann daginn „vegna sérstakra aðstæðna“.
En þegar AFP hafði samband vildi safnið ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Louvre, sem var aðsetur franskra konunga þar til Loðvík XIV yfirgaf það fyrir Versali seint á 17. öld, er reglulega talið mest heimsótta safn heims.
Safnið tók á móti níu milljónum gesta á síðasta ári.
Komment