
Tilkynning um yfirvofandi árás í Reykjavík barst ríkislögreglustjóra í fyrra. Líklegt er að ætlunin hafi verið að rýra traust almennings á viðbragði á Íslandi, frekar en að raunveruleg árás hafi verið skipulögð.
RÚV segir frá því að ábending um yfirvofandi árás í Reykjavík hafi borist ríkislögreglu í fyrra en að upplýsingarnar hafi átt sér rússneskan uppruna. Yfirmaður öryggis- og greiningardeildar ríkislögreglustjóra, Karl Steinar Valsson, telur mögulega hafi ábendingin verið ætlað að veikja trú almennings á öryggisviðbrögðum á landinu.
Karl Steinar greindi frá þessu í Silfrinu í gærkvöldi en þar var rætt um öryggismál á Íslendingu, í kjölfar sinnaskipta Bandaríkjastjórnar gagnvart Rússlandi og stríðinu í Úkraínu.
„Við fengum ábendingu, eða það kom tilkynning til lögreglu í fyrra um að það væri yfirvofandi árás í Reykjavík sem að setur allt á hliðina á okkur,“ segir Karl Steinar.
Með alþjóðlegri aðstoð rakti lögreglan upplýsingarnar um árásina til Rúmeníu en þær höfðu rússneskan uppruna. Þá hafi komið í ljós eftir rannsóknina að svipuð ábending barst einnig öðru landi.
Upplýsingarnar voru mögulega falskar að sögn Karls Steinars en að slíkum ábendingum sé ætlað að veikja traust almennings á öryggisviðbragði á Íslandi.
„Hefðum við brugðist við þeim með þeim hætti, til dæmis að aflýsa fjöldasamkomum og annað slíkt. Þá hefði og síðan hefði ekkert gerst og við ekki getað kannski hérna greint almennilega frá þessu þá hefði tiltrú meðal almennings mjög líklega verið mjög rýrð,“ segir Karl Steinar.
RÚV hafði samband við Karl Steinar sem sagðist ekki geta gefið frekari upplýsingar um málið.
Komment